Terfel aðeins fyrir boðsgesti

Bryn Terfel.
Bryn Terfel. mbl.is/Þorkell Þorkelsson.

Sinfóníutónleikar í kvöld, þar sem óperusöngvarinn heimskunni frá Wales, Bryn Terfel, syngur með hljómsveitinni, eru ekki ætlaðir almenningi, öðrum en sérstökum boðsgestum KB banka, Sinfóníuhljómsveitarinnar og forsetaembættisins. Boðið er til kvöldfagnaðar að tónleikum loknum og spariklæðnaðar æskt.

Samkvæmt upplýsingum frá Þresti Ólafssyni, framkvæmdastjóra hljómsveitarinnar, stendur hljómsveitin fyrir tónleikunum, sem kynntir eru sem hátíðartónleikar, en að um samstarf við KB banka og forsetaembættið sé að ræða. KB banki kaupi ákveðinn miðafjölda fyrir sína gesti.

Helga Thors, á skrifstofu forstjóra KB banka, segir að bankinn taki þátt í kostnaði við hátíðartónleikana nú eins og í fyrra, fyrir tilstilli forsetaembættisins. Í fyrra hafi finnskum gestum verið boðið, þar á meðal Osmo Vänskä, en forsetinn hafi þá boðið þeim Mauno Koivisto, fyrrverandi forseta Finnlands, og konu hans, Tellervo Koivisto. „Nú býður forsetinn Valerie Amos, enskri barónessu sem heiðursgesti. Til að gera þetta sem veglegast fengu þeir okkur til að bjóða Bryn Terfel til landsins - bankinn kostar það, en við keyptum líka 300 miða af hljómsveitinni sem við dreifum aðallega á okkar viðskiptavinahóp, sérstaklega viðskiptavini útibúanna.“

Tilefni tónleikanna segir Þröstur vera það að hátíð sé að ganga í garð. „Við vildum gera hljómsveitinni og okkar elstu og dyggustu áskrifendum dagamun og sýna þeim það að við metum þeirra tryggð. Til þess að gera þetta myndarlegt og almennilegt, leituðum við eftir samstarfi við forsetaembættið og KB banka. Það er dýrt þegar menn bjóða. Eftir tónleikana er hljómsveitinni og mökum þeirra boðið í kvöldfagnaðinn sem þarna verður.“

Breskt yfirbragð verður á tónleikunum að sögn Þrastar, því auk heiðursgestanna, Bryns Terfels og barónessunnar Valerie Amos, er hljómsveitarstjórinn breskur, sjálfur aðalstjórnandinn, Rumon Gamba. „Tónlistin verður að uppistöðu bresk-íslensk, þótt það verði líka aríur úr öðrum áttum í bland, eins og úr Don Giovanni og Carmen.“

Að sögn Þrastar stendur ekki til að endurtaka tónleikana fyrir almenning.

Að sögn Örnólfs Thorssonar, skrifstofustjóra forsetaembættisins, leitaði Sinfóníuhljómsveitin til embættisins um að taka þátt í sérstökum hátíðartónleikum hljómsveitarinnar fyrir ári. Forsetinn hafi þá haft milligöngu um að bjóða hingað Osmo Vänskä hljómsveitarstjóra og sérstökum heiðursgesti, Mauno Koivisto, fyrrverandi forseta Finnlands. Á hátíðartónleika hljómsveitarinnar í ár bjóði forsetaembættið heiðursgestinum Valerie Amos barónessu og ráðherra í bresku ríkisstjórninni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert