Búið að sleppa Íslendingi úr haldi í Hebron

Íslendingi, sem ísraelskir lögreglumenn höfðu afskipti af í borginni Hebron í gær, hefur verið sleppt, að því er kemur fram á heimasíðu mannréttindahreyfingar. Íslendingurinn, Haukur Hilmarsson, var fluttur til yfirheyrslu ásamt danskri konu en þeim var sleppt að því loknu.

Á heimasíðunni palsolidarity.org er atvikum lýst þannig, að í gær hafi tveir palestínskir unglingar verið á gangi eftir götu í nágrenni gyðingabyggðar í Hebron og þar hafi átta ísraelsk börn gert aðsúg að þeim með grjótkasti.

Tveir starfsmenn mannréttindasamtaka, dönsk kona og Íslendingur, hafi gengið á milli og kallað á nálæga ísraelska hermenn til aðstoðar. Hermennirnir ræddu við unglingana og lægðu öldurnar.

Í kjölfarið hafi kona, búsett í gyðingabyggðinni hrópað svívirðingar að dönsku konunni og önnur kona kvaddi landamæralögreglu til. Lögreglan færði dönsku konuna og Íslendinginn á lögreglustöð til yfirheyrslu en ekki var búist við að þau yrðu ákærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert