Prestastefna hefst á morgun

Prestastefna verður á Húsavík í vikunni og hefst hún á morgun með messu í Húsavíkurkirkju. Þá ganga prestar og djáknar frá Fosshóteli klukkan 19 að kirkjunni þar sem sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir predikar.

Á miðvikudag verður m.a. umræða um álit kenningarnefndar um Þjóðkirkjuna og staðfesta samvist sem og drög að formi um blessun staðfestrar samvistar. Dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson, Steinunn A. Björnsdóttir og sr. Kristján Valur Ingólfsson munu fjalla um álitið og blessunarformin, meðal annars út frá lútherskri guðfræði og í alþjóðlegu samhengi. Á fimmtudag verða lagðar fram hugmyndir um breytta tilhögun hvað varðar ýmsar hliðar prestverka. Prestastefnu lýkur síðdegis á fimmtudag með messu í Húsavíkurkirkju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert