Össur: Það hefur enginn spurt eftir Bjarna

Bjarni Ármannsson
Bjarni Ármannsson

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra segist ekki hafa orðið var við það að deilurnar um samruna Reykjavik Energy Invest og Geysir Green Energy hafi haft áhrif á viðhorf erlendra ráðamanna og sérfræðinga til jarðorkumála á Íslandi en Össur er nú á ferð í Indónesíu þar sem hann hefur m.a. rætt við ráðamenn um hugsanlega samvinnu ríkjanna varðandi jarðvarmanýtingu. Þá segist hann ekki hafa orðið var við það að fjarvera Bjarna Ármannssonar, stjórnarformanns REI, hafi haft áhrif á viðræður um málið.

„Ég er hér sem fulltrúi ríkisstjórnarinnar og ég klára mig alveg einn,” sagði Össur er blaðamaður mbl.is ræddi við hann í dag. „Það hefur enginn spurt eftir Bjarna og ég hef hvergi orðið þess áskynja að deilurnar um málefni Orkuveitu Reykjavíkur hafi haft nein áhrif á áhuga manna á samvinnu við Íslendinga varðandi þessi mál.”

Össur sagðist hins vegar hafa orðið var við það að til staðar sé ákveðin þekking á jarðvarmanýtingu Íslendinga í Indónesíu sem m.a. megi rekja til þess að tuttugu til þrjátíu Indónesar hafi sótt Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Þá sagði hann það sýna það trúnaðartraust sem Íslendingar njóti á þessum vettvangi að samþykkt hafi verið á fundi hans með Susilo Bambang Yudhoyono, forseta Indónesíu, í morgun að halda sérstakan sumarskóla hér á landi í tengslum við Jarðhitaskóla SÞ þrjú næstu sumur sem efnilegum jarðvísindamönnum frá Asíu verði boðið til.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert