Kynsjúkdómur leggst á mörgæsir í dýragarði

Mörgæsir á Suðurskautslandinu.
Mörgæsir á Suðurskautslandinu. AP

Dularfullur klamydíufaraldur hefur brotist út í dýragarðinum í San Francisco og lagst á mörgæsir í garðinum. Klamydía smitast milli manna við kynmök en ljóst er að mörgæsirnar hafa smitast með öðrum hætti. Á annan tug fugla hefur drepist af völdum sjúkdómsins, sem veldur öndunarerfiðleikum og nýrnabilun.

Talsmaður dýragarðsins segir að grunur leiki á að sjúkdómurinn hafi borist í dýragarðinn með mávadriti en hans varð fyrst vart á mörgæsasvæðinu í febrúar.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem mörgæsirnar í dýragarðinum í San Francisco valda mönnum heilabrotum. Eftir að sex nýjar mörgæsir bættust í hópinn í desember árið 2003 hófu fuglarnir skyndilega að synda stöðugt í hringi en venjulega fá mörgæsirnar sér aðeins stuttan sundsprett. Þessi hegðun hélt áfram þar til í febrúar árið eftir. Gripið var til þess ráðs að tæma laug mörgæsanna en þá gengu þær í hringi í staðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert