Birna Ósk einangruð eftir samband við þekktan ofbeldismann

Birna Ósk hefur gengið í gegnum margt.
Birna Ósk hefur gengið í gegnum margt. Skjáskot/Instagram

Hin 26 ára gamla Birna Ósk Ólafsdóttir hefur gengið í gegnum gríðarlega margt. Fyrir nokkrum árum féll hún fyrir manni sem var ekki allur þar sem hann var séður. Birna Ósk átti í stormasömu sambandi við mann sem var mikið í sviðsljósinu fyrir nokkrum árum vegna ódæðisverka. Birna Ósk er nýjasti gestur í hlaðvarpsþætti Helga Ómars, Helgaspjallinu, þar sem hún segir meðal annars frá erfiðleikum sínum og krefjandi bataferli. 

„Áður en þetta gerðist hugsaði ég oft að þetta myndi aldrei koma fyrir mig,“ segir Birna Ósk sem var lengi að átta sig á því af hverju stúlkur og konur í svipuðum sporum færu ekki úr slíkum aðstæðum undir eins. 

Birna Ósk segist enn vera að vinna sig út úr áfallinu sem hún varð fyrir, en sambandi hennar og hans fylgdu ýmsir erfiðleikar, þar á meðal sögusagnir og einangrun frá vinum, sem hún upplifir enn þann dag í dag. Hún lýsir því hvernig hún einangraði sig hægt og bítandi frá einu og öllu þar sem hún vildi ómögulega stefna vinum og vandamönnum í hættu né að þeir upplifðu sig óörugga. Birnu Ósk var alltaf annt um velferð ástvina þrátt fyrir að vera sjálf brotin og ráðþrota. 

„Þegar ég fór í Bjarkarhlíð“

Birna Ósk leitaði sér aðstoðar í Bjarkarhlíð, sem er þjónustustaður fyrir fólk sem hefur verið beitt ofbeldi. „Ég gleymi því aldrei þegar ég fór í Bjarkarhlíð en þá fann ég fyrir tilfinningu vonleysis. Konurnar sem ég ræddi við sögðu mál mitt grafalvarlegt en báðar könnuðust þær við aðilann sem ég ræddi um,“ segir Birna Ósk sem segir samtalið hafa opnað augu sín fyrir alvarleika málsins en þó ekki fyrr en mun síðar. 

„Þær vildu koma mér að í endurhæfingu en ég rauk út og kom aldrei aftur. Ég hugsaði bara: „Vá, þær eru að mikla þetta fyrir sér, þetta er ekki mín upplifun,“ segir Birna Ósk sem viðurkennir í dag að viðbrögð þeirra hafi verið hárrétt en að hún hafi ekki verið með hausinn á réttum stað á þessum tíma. 

„Drepur hann alla sem koma nálægt henni“

Maðurinn var reglulega á síðum fjölmiðla og á allra vörum fyrir örfáum árum og segir Birna Ósk enn vera mikla forvitni um sambandsstöðu þeirra og tíma saman. 

„Ég hef aldrei tjáð mig um þetta en mitt nánasta fólk er oft spurt, þá sérstaklega vinkonur mínar, en þær fá spurningar á við: „Er hann á eftir henni eða drepur hann alla sem koma nálægt henni?“ Birna Ósk segist stundum fá á tilfinninguna að hún sé brennimerkt á enninu. 

Segir fólk ekki sjá sig

Birna Ósk segir það erfitt að vera bendluð við hann eftir allan þennan tíma. „Ég er alltaf bendluð við allt sem tengist honum. Það er aldrei talað um Birnu Ósk sem var alltaf í hestunum eða konuna sem er alltaf í ræktinni, það er alltaf sú sem var með honum, þetta eltir mig,“ segir Birna Ósk sem lýsir þessu sem ákveðinni tegund eineltis. 

„Við erum að tala um fjögur ár af baktali og sögusögnum, mér finnst það lítið annað en einelti,“ segir hún. „Fólk er hrætt við mig og órólegt í kringum mig. Þetta er svo sárt, þessi eilífa höfnun.

Ég hef fundið fyrir því í persónu- og atvinnulífinu, en ég var til að mynda eitt sinn tekin á fund og spurð að því hvort að samstarfsfólk mitt væri í hættu vegna viðveru minnar á vinnustaðnum. Ég get ómögulega lýst því hvað það var sárt,“ segir Birna Ósk sem hefur algjörlega einangrað sig og á í dag erfitt með að fara inn í Krónuna þar sem henni líður alltaf eins og fólk sé að dæma sig. „Ég þarf að sannfæra mig í fimm mínútur í bílnum um að ég geti verslað í matinn.“

Hægt er að hlusta á þátt­inn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál