Segir fólk koma öðruvísi fram við sig eftir þyngdartap

Arna Vilhjálmsdóttir hefur verið í sviðsljósinu frá því hún sigraði …
Arna Vilhjálmsdóttir hefur verið í sviðsljósinu frá því hún sigraði Biggest Loser Ísland. Samsett mynd

Arna Vilhjálmsdóttir, samfélagsmiðlastjarna og einn af sigurvegurum Biggest Loser Ísland, fjallar mikið um líkamsvirðingu, heilsueflingu og fjölbreytileika líkamsvaxtar á samfélagsmiðlinum Instagram. Arna hefur einnig verið dugleg að segja frá eigin reynslu og heilsuferðalagi, bæði andlegu og líkamlegu.

Nýverið deildi Arna hjartnæmri færslu sem kveikti án efa vonarneista hjá fylgjendum hennar á Instagram. Þar taldi hún upp þær ástæður eða ákvarðanir og gjörðir sem leiddu til eigin hamingju og sagðist hún aldrei hafa verið jafn hamingjusöm. Ástæður Örnu eru sjö talsins. 

Reif sig upp úr þunglyndi og fann ástina

Efst á hamingjulista Örnu er ástin, en hún fann ástina í örmum Jacko Groen nýverið. Hann er Hollendingur og býr sem stendur í 2.200 kílómetra fjarlægð. „Ég er ástfangin og trúi því af öllu hjarta að ég hafi fundið manneskjuna mína,“ skrifar Arna meðal annars.

Hún nefnir einnig sterk tengsl sín við frændsystkin. „Það gleður mig mjög mikið að hafa tekið stökkið og flutt frá Reykjavík. Það hefur styrkt sambönd mín og í dag lít ég á frændsystkin mín sem systkini,“ skrifar hún. Arna hóf nýtt líf á Patreksfirði. 

Arna segist einnig loksins sátt í eigin skinni og segir frá því hvernig hún hefur þurft að rísa upp úr erfiðum aðstæðum. 

„Ég er hér enn. Ég kem frá einstaklega erfiðum og dimmum stað. Í dag á ég ekki aðeins framtíð, ég get ímyndað mér framtíð og er nú þegar virk í að skipuleggja hana,“ skrifar Arna sem er óendanlega þakklát fyrir lífið, fjölskylduna, land sitt og eigin sjálf. 

„Ég er ekki meitluð í stein“

Arna léttist um 60 kíló þegar hún tók þátt og á endanum sigraði Biggest Loser Ísland árið 2017. Frá þeim tíma hefur hún verið ófeimin að deila persónulegum sigrum, upplifunum, uppákomum, sorgum og gleði. 

Arna sagði frá því nýverið að hún sæi mun á hegðun og framkomu fólks eftir að hún léttist, en hún hefur rokkað upp og niður í þyngd í þó nokkurn tíma.

„Það sem ég er stoltust af síðustu ár er að ég læt ekki koma öðruvísi fram við eftir því hvar ég fell í samfélagsstiganum. Ég er enn þá og mun alltaf vera ég og hvernig ég lít út kemur því bara ekkert við.

Ég er ekki óánægð með mig á neinni af myndunum. Ég er ekki meitluð í stein og get þess vegna alveg breyst, en virði mitt breytist ekki. Þess krefst ég,“ skrifar Arna. 

Hún heldur áfram og segir: „Fólk horfir samt á mig öðruvísi. Það kemur öðruvísi fram við mig í verslunum og á opinberum stöðum. Það bendir ekki á mig eða skoðar það sem ég borða eins gaumgæfilega. Það er minna „skotleyfi“ á mér núna sem er svo sorglegt.

Líkamsstærðin mín var og er aukaatriði. Þín er það líka. Gerðu það sem er heilbrigt fyrir þig og hlúðu að þér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál