Ólafur: Vitað að þetta yrði erfitt

Ólafur Þórðarson var ánægður eftir sætan sigur Víkinga á Fjölni 1:0 en sigurmarkið kom ekki fyrr en á 89. leiksins í eina alvöru færi Víkinga en markið gerði fyrirliði þeirra Igor Taskovic.

Ólafur bjóst við að leikurinn í dag yrði erfiður og að Víkingar þyrftu að vera þolinmóðir.

„Það var svo sem vitað að þetta yrði erfitt. Ég talaði um það fyrir leik að í dag yrðum við að vera sérstaklega þolinmóðir. Við erum að bíða eftir að fá þetta eina færi sem myndi gefa okkur mark, það gæti komið á síðustu sekúndum leiksins og það gerði það,“ sagði Ólafur.

Ólafur var svekktur að sjá að lið sitt ekki keyra upp hraðann í spili sínu.

„Nei ég var fyrst og fremst svekktur yfir því að við keyrðum ekki upp tempóið í spilinu okkar. Það var það sem var að pirra mig allan leikinn. Við vorum að láta þá draga okkur niður á þetta hæga tempó sem þeir vildu halda leiknum á,“ sagði Ólafur en nánar er rætt við hann í ofanverðu myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert