Harpa: Reyni að nýta það sem maður fær

Harpa Þorsteinsdóttir var maður leiksins þegar Stjarnan vann Selfoss í bikarúrslitaleiknum í knattspyrnu á Laugardalsvelli í dag en hún skoraði þrennu í 4:0-sigri. Þar með kórónaði hún frábært tímabil með Stjörnunni sem enn er reyndar ekki lokið.

Stjarnan hafði ekki fengið nein almennileg færi þegar Harpa kom liðinu yfir rétt fyrir lok fyrri hálfleiks, og það reyndist afar dýrmætt.

„Maður reynir að nýta það sem maður fær. Við vorum búnar að skapa okkur hálffæri við teiginn en það vantaði lokahnykkinn. Við fengum heldur ekki nein færi á okkur en í seinni hálfleik keyrðum við þetta upp og nýttum okkar styrkleika og þeirra veikleika,“ sagði Harpa, en Stjarnan skoraði þrjú mörk á síðustu tíu mínútunum. Fram að því var þó ekki útlit fyrir að Selfoss væri að fara að jafna metin.

„Eins og þetta spilaðist í dag var maður ekki mjög stressaður. Við erum bara með frábæra varnarlínu, þær gefa ekki nein færi á sér og Sandra var mjög örugg í markinu. Maður var alveg rólegur en auðvitað vildi maður samt bæta mörkum inn,“ sagði Harpa. Hún hefur átt stórkostlegt tímabil og á fullt erindi í gott atvinnumannalið en vill ekkert hugsa um það núna:

„Ég er bara með hausinn í Garðabænum núna. Við erum með markmið fyrir tímabilið og ég ætla að klára þau áður en maður hugsar málið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert