Frá Akureyri í Afríkukeppnina

Roxanne Barker í leik með Þór/KA.
Roxanne Barker í leik með Þór/KA. mbl.is/Ómar

Roxanne Barker, markvörður kvennaliðs Þórs/KA, hefur verið valin í suður-afríska landsliðið í knattspyrnu sem keppir í úrslitakeppni Afríkumótsins í Namibíu síðar í þessum mánuði.

Barker hefur verið viðloðandi landsliðið síðustu árin og á nokkra landsleiki að baki en hún lék m.a. með því á Ólympíuleikunum í London fyrir tveimur árum. Hún er eini leikmaðurinn í 21 manns hópi sem valinn var fyrir keppnina sem spilar ekki með liði í Suður-Afríku.

Suður-Afríka er í riðli með Kamerún, Alsír og Gana en þrjú efstu lið keppninnar komast í lokakeppni HM í Kanada á næsta ári.

Barker kom til lið við Þór/KA fyrir þetta keppnistímabil og spilaði 17 af 18 leikjum þess en hvíldi í lokaumferðinni þar sem ungum markverði Akureyrarliðsins var gefið tækifæri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert