Sá að ég myndi ná sendingunni

Jóhann Berg Guðmundsson í skallaeinvígi við Júrí Logvinenko í leiknum …
Jóhann Berg Guðmundsson í skallaeinvígi við Júrí Logvinenko í leiknum í dag. AFP

Jóhann Berg Guðmundsson lagði upp fyrsta mark Íslands fyrir Eið Smára Guðjohnsen í sigrinum gegn Kasakstan, 3:0, í Astana í undankeppni EM í knattspyrnu í dag og sagði við mbl.is eftir leikinn að það hefði verið geysilega mikilvægt að ná forystunni á þessum tímapunkti, eftir 20 mínútna leik.

„Markvörðurinn átti lélegt útspark sem mér tókst að komast inní, ég náði að vera klókur þar og sá að ég myndi ná þessari sendingu frá honum. Ég tók boltann á kassann og sá gott hlaup hjá Eiði Smára, sendi boltann á hann, og það var frábært sjá gamla skora.

Við erum með frábæra framherja í þessu liði og Eiður er einn af þeim, og hann hefur gert þau mörg á ferlinum. Þetta var mjög mikilvægt augnablik í leiknum, það var búin að vera mikil pressa á okkur næst mínútur á undan og Kasakarnir voru hættulegir með aukaspyrnur fyrir utan teiginn hjá okkur.

Það skipti því gríðarlega miklu máli að ná að skora á þessum tímapunkti, hvað þá að koma inn marki númer tvö fljótlega eftir það. Svo voru varnarmennirnir hjá okkur frábærir í dag. Við slökuðum full mikið á í seinni hálfleik og gátum þeim of mikinn tíma með boltann. Við vorum nokkuð þéttir varnarlega, það kom þarna eitt hættulegt augnablik þegar þeir áttu skallann í stöng. Þar vorum við dálítið heppnir. Síðan náðum við að skora þetta þriðja mark og afgreiða þetta endanlega.

Heilt yfir var þetta því nokkuð þægilegur sigur og það er gífurlega mikilvægt að vera búnir að klára útileikina við Lettland og Kasakstan á sannfærandi hátt. Ef við ætlum okkur eitthvað í svona keppni þá eru þetta leikirnir sem verða að vinnast, og það gerðum við mjög fagmannlega," sagði Jóhann sem var í fyrsta  skipti í byrjunarliði Íslands í þessari keppni og tók stöðu Emils Hallfreðssonar.

Hvernig var svo að spila á gervigrasinu?

„Það var alveg ágætt, við erum búnir að æfa á þessu gervigrasi nokkuð lengi, en það er aldrei það sama að spila á gervigrasi og grasi. En við höfum allir gert það áður svo þetta var lítið vandamál fyrir okkur. Við erum með vel spilandi lið og því ekkert mál að vera á þessu þó ég kjósi alltaf grasið frekar.

Þetta eru þrjú mjög góð stig og nú verður alvöru leikur við Tékka á Laugardalsvellinum í júní. Ég býst við fullum velli og gífurlegri stemningu þar. Það verður alvöru úrslitaleikur um efsta sætið eins og staðan er núna," sagði Jóhann Berg Guðmundsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert