Laugardalsvöllur til skammar

Heimir Hallgrímsson
Heimir Hallgrímsson Eggert Jóhannesson

Heimir Hallgrímsson, annar landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu segir aðstöðuna á Laugardalsvelli vera til skammar. Þetta sagði hann í viðtali við Áramót sem er tímarit Viðskiptablaðsins.

Það hefur ekki farið framhjá mörgum að uppselt var á alla heimaleiki íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu í undankeppninni fyrir Evrópumótið í Frakklandi. Vinsældir liðsins hafa aldrei verið meiri, enda tryggði liðið sér þátttökurétt í fyrsta sinn á lokamóti þar sem liðið mun spila í Frakklandi næsta sumar.

Nú séu aðstæður orðnar þannig að Laugardalsvöllur er að mörgu leyti kominn til ára sinna og að breyta þurfi til.

„Fyrir það fyrsta þá skammast maður sín alltaf fyrir hvern einasta landsleik," sagði Heimir í Áramótum.

„Ef við tökum bara búningsaðstöðuna þá er hún byggð fyrir tugum árum síðan þegar lið voru með hámark 16 leikmenn í hópnum hjá sér. Núna eru 23 leikmenn og hjá mörgum landsliðum eru jafn margir starfsmenn og leikmenn. Allur þessi hópur kemst ekki inni í þessa litlu búningsklefa. Stundum sér maður fjörutíu töskur úti á gangi því það er ekki hægt að koma þeim fyrir inni í klefanum. Maður skammast sín svolítið fyrir að bjóða upp á þessa aðstöðu." sagði Heimir.

Heimir segir í viðtalinu að aðstaðan sem boðið er upp á í Laugardalnum sé sú langlélegasta og að breyta þurfi til. Að jafnvel lið í 2. deild á Englandi séu með miklu betri aðstöðu.

Svo mætti Hlaupabrautin alveg fara að mati Eyjamannsins.

„Stemningin á Laugardalsvelli hefur verið frábær í undanförnum landsleikjum en hún væri enn þá betri ef hlaupabrautin væri ekki þarna og völlurinn hannaður sérstaklega fyrir fótboltaleiki.“

Aðstaðan á Laugardalsvelli er að mörgu leyti komin til ára …
Aðstaðan á Laugardalsvelli er að mörgu leyti komin til ára sinna. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert