Kann vel við mig í Kína

Sölvi Geir Ottesen á æfingu íslenska landsliðsins.
Sölvi Geir Ottesen á æfingu íslenska landsliðsins. mbl.is/Eggert

Landsliðsmaðurinn Sölvi Geir Ottesen mun halda uppi heiðri Íslendinga í Kínasparkinu á komandi leiktíð en hann er nú eini íslenski knattspyrnumaðurinn sem er eftir í Kína eftir að Viðar Örn Kjartansson og Eiður Smári Guðjohnsen hurfu á braut.

Sölvi og Viðar Örn léku saman með Jiangsu Suning í kínversku úrvalsdeildinni á síðasta ári og urðu bikarmeistarar með liðinu og Eiður Smári spilaði með Shijiazhuang Ever Bright.

Viðar samdi á dögunum við sænska úrvalsdeildarfélagið Malmö og Eiður er í þann veginn að semja við norska úrvalsdeildarfélagið Molde.

Sölvi Geir hefur líka haft vistaskipti. Hann er farinn frá Jiangsu Suning og samdi á dögunum við Wuhan Zall sem leikur í kínversku B-deildinni. Sölvi gerði eins árs samning við félagið sem hafnaði í 9. sæti á síðustu leiktíð með möguleika á framlengingu um eitt ár.

„Ég er að fara í æfingabúðir með nýja liðinu mínu en deildin hefst svo í næsta mánuði,“ sagði Sölvi Geir í viðtali við Morgunblaðið.

En hver var ástæðan fyrir því að hann fór frá Jiangsu Suning?

„Það kom inn nýr styrktaraðili hjá félaginu og það var farið út í stórfelldar breytingar á liðinu. Það ákvað að losa sig við fjóra útlendinga og við fengum skýr skilaboð um að við gætum farið að leita okkur að nýjum liðum. Lið Wuhan Zall kom fljótlega inn í myndina hvað mig varðar og eftir samningaviðræður komust félögin að samkomulagi og í kjölfarið samdi ég við það.

Fyrstu kynni mín af liðinu eru bara góð. Ég geri mér grein fyrir því að standardinn í þessari deild er ekki eins góður og í úrvalsdeildinni en stefna félagsins er skýr. Það ætlar að ná árangri og vinna sér sæti í deild þeirra bestu,“ sagði Sölvi, sem lék eitt tímabil með Jiangsu Suning.

Ýtarlegt viðtal við Sölva Geir er að finna í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert