Afar svekkjandi að fá engin stig

Viðar Ari Jónsson, leikmaður Fjölnis, í baráttu við Þórarinn Inga …
Viðar Ari Jónsson, leikmaður Fjölnis, í baráttu við Þórarinn Inga Valdimarsson, leikmann FH, í leik liðanna í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við áttum ekki skilið að tapa þessum leik og þetta er afar svekkjandi. Við sköpuðum okkur nóg af færum til þess að tryggja okkur sigurinn, en nýttum þau ekki og vorum svo ekki á tánum undir lokin og var refsað fyrir það,“ sagði Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Fjölnis, í daufur í dálkinn í samtali við mbl.is eftir 1:0 tap liðsins gegn FH í 15. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. 

„Ég er heilt yfir mjög sáttur við strákana, við börðumst vel og létum boltann ganga hratt og örugglega. Við áttum góðar sóknir og gáfum fá færi á okkur hinum megin. Það er hins vegar stutt á milli í þessu og einbeitingaleysi fyrir framan mark þeirra og í varnarleiknum varð okkur að falli. Við getum hins vegar tekið fullt jákvætt út úr þessum leik í næstu verkefni okkar,“ sagði Ágúst Þór um spilamennsku Fjölnis í leiknum. 

„Við vorum lítið að pæla í því að við gætum komist á toppinn. Við fórum bara inn í þennan leik og ætluðum að vinna eins og alltaf. Það er sérstaklega svekkjandi að tapa á þennan hátt, það er að fá mark í andlitið á lokamínútum leiksins eftir að hafa verið sterkari aðilinn í leiknum. Það er sárt að fá ekkert út úr leiknum, en svona er fótboltinn,“ sagði Ágúst Þór enn fremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert