Valskonur á toppnum

Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði eitt marka Vals fyrir norðan.
Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði eitt marka Vals fyrir norðan. mbl.is/Árni Sæberg

Valskonur eru með sex stig á toppi A-deildar Lengjubikars kvenna í knattspyrnu eftir að önnur umferð var leikin um helgina en þær sóttu Þór/KA heim til Akureyrar og sigruðu 3:0 í Boganum.

Elin Metta Jensen, Vesna Elísa Smiljkovic og Margrét Lára Viðarsdóttir skoruðu mörkin á fimm mínútna kafla seint í fyrri hálfleik.

Stjarnan vann FH örugglega, 4:0, í Reykjaneshöllinni þar sem Nótt Jónsdóttir gerði eitt markanna en hún kom til liðs við Stjörnuna frá FH á dögunum. Ana Victoria Cate, Guðmunda Brynja Óladóttir og Lára Mist Baldursdóttir skoruðu hin mörk Íslandsmeistaranna.

Breiðablik vann ÍBV, 3:0, í Fífunni. Hildur Antonsdóttir skoraði í fyrri hálfleik og þær Fanndís Friðriksdóttir og Rakel Hönnudóttir bættu við mörkum undir lokin.

Valur er með 6 stig, Stjarnan 4, Breiðablik 4, en ÍBV og FH eru án stiga eftir tvær umferðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert