Þetta er mjög súrt

Ívar Örn Jónsson.
Ívar Örn Jónsson. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

„Þetta er mjög svekkjandi,“ sagði vinstri bakvörðurinn Víkings R., Ívar Örn Jónsson við mbl.is, eftir 2:2-jafntefli Víkings og Stjörnunnar í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag. Garðbæingar jöfnuðu metin á fimmtu mínútu í uppbótartíma.

„Við erum með þrjú stig í hendi þangað til það eru 50 sekúndur eftir, sem er mjög súrt. Við þurftum á þessum þremur stigum að halda til að spyrna okkur frá botnliðunum,“ bætti Ívar við.

Haraldur Björnsson, markvörður Stjörnunnar, var verulega óánægður með annað mark Víkings. Hann taldi að Vladimir Tufegdzic hefði brotið á sér en ekkert var dæmt. Ívar telur ekki að um brot hafi verið að ræða.

„Arnþór gefur boltann fyrir á fjærstöng og Tufegdzic hoppar upp með markmanninum og hann virðist missa boltann í markið. Mér sýndist þetta ekki vera brot og sýndist líkamstjáning Stjörnumanna gefa til kynna að þetta væri ekki brot,“ sagði Ívar.

Víkingur hefði með sigri í dag náð að slíta sig frá neðstu liðunum en eru þess í stað einungis þremur stigum fyrir ofan Fjölni og Víking Ólafsvík sem eru í 9. og 10. sæti deildarinnar.

„Við förum upp í 23 stig og höldum þessu eins leiks bili sem við höfum á þau. Við eigum eftir að spila við Víking Ólafsvík og Skagann og verðum að klára þá leiki,“ sagði Ívar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert