„Við sýndum öllum heiminum“

Hannes Þór Halldórsson í leiknum í kvöld.
Hannes Þór Halldórsson í leiknum í kvöld. AFP

„Það eru engin orð. Maður er að upplifa einhverjar nýjar tilfinningar. Þetta er svo ótrúlega brjálað að ég er enn að átta mig á því að þetta er ekki draumur,“ sagði landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson eftir sigur Íslands á Englandi í sextán liða úrslitum Evrópumótsins í kvöld.

Hannes fékk á sig vítaspyrnu strax á þriðju mínútu sem Wayne Rooney skoraði úr, en örfáum mínútum síðar jafnaði Ragnar Sigurðsson áður en Kolbeinn Sigþórsson tryggði sigurinn.

„Þetta var martraðarbyrjun fyrir mig persónulega og liðið, en sem betur fer er ég með frábæra liðsfélaga sem hreinsuðu upp eftir mig. Þeir sögðu eftir leik að þetta væri það besta sem gat gerst því það kveikti neista í liðinu. Það að ná að jafna svona snemma gaf okkur þvílíkan meðbyr og kraft,“ sagði Hannes.

„Við höfum sagt það lengi að við eigum mikið inni. Við þurftum að eiga einn af okkar bestu leikjum til að vinna England og við gerðum það. Við sýndum öllum í heiminum að við erum góðir í fótbolta,“ sagði Hannes.

Fram undan er leikur við Frakka í átta liða úrslitum, en þjóðirnar mætast á sunnudag.

„Ætli það verði ekki í fimmtánda sinn síðustu fjögur ár sem komið er að stærsta leiknum í íslenskri fótboltasögu. Við höfum tæklað þá pressu vel, en það verður frábært kvöld eins og þetta. Ævintýrið heldur áfram og við förum að sjálfsögðu í þann leik með plan um að vinna Frakkana. Það er engin ástæða til annars og við höfum sýnt að við getum unnið hverja sem er,“ sagði Hannes.

Íslenskir stuðningsmenn voru áberandi á leiknum þrátt fyrir að vera mun færri en þeir ensku. Hannes áréttar að stuðningurinn sé ómetanlegur.

„Íslendingum finnst svo gaman hérna, alveg eins og okkur. Hér eru allir að skemmta sér með stuðning og gleði. Að hafa fólkið hér er ómetanlegt, og að yfirgnæfa 30 þúsund Englendinga er geðveikt ævintýri. Við eigum allir Íslendingar að njóta þess á meðan það varir og vonandi heldur það áfram eins lengi og hægt er,“ sagði Hannes Þór Halldórsson.

Hannes Þór Halldórsson eftir að hafa fellt Raheem Sterling og …
Hannes Þór Halldórsson eftir að hafa fellt Raheem Sterling og víti dæmt. AFP
mbl.is

LEIKIR Í DAG - 26. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 26. APRÍL

Útsláttarkeppnin