Ensku liðin kynnt - Stoke City

Stoke City hafnaði í 14. sætinu í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á síðasta tímabili en var þó ofar í deildinni en það allan veturinn og var aldrei í teljandi hættu á að dragast niður í fallslaginn. Liðið náði ekki sigri í síðustu sex leikjum sínum á tímabilinu og endaði því heldur neðar en útlit var fyrir lengst af.

Stoke, sem er eitt af elstu og rótgrónustu knattspyrnufélögum Englands, er að hefja sitt fimmta tímabil í röð í úrvalsdeildinni en félagið komst í efstu deild á ný árið 2008 eftir 23 ára fjarveru þar sem liðið lék í B- og C-deildunum frá 1985.

Íslendingar þekkja vel til baráttu Stoke fyrir því að komast aftur í hóp betri liða Englands. Í árslok 1999 keypti íslenska eignarhaldsfélagið Stoke Holding meirihluta í félaginu. Gunnar Gíslason varð stjórnarformaður og Guðjón Þórðarson, þáverandi landsliðsþjálfari Íslands, var ráðinn knattspyrnustjóri. Stoke var þá í C-deildinni, vann bikarkeppni neðrideildaliða fyrsta veturinn og fór uppí B-deild undir stjórn Guðjóns vorið 2002. Hann var hinsvegar rekinn eftir árekstra við stjórn félagsins eftir að liðið var komið upp.

Stoke var í íslenskri eigu þar til einn af fyrri eigendum, Peter Coates, keypti meirihluta í félaginu í maí 2006 og réð í kjölfarið Tony Pulis aftur til félagsins en Íslendingarnir höfðu sagt honum upp störfum vorið 2005.

Fjölmargir Íslendingar léku með Stoke um þetta leyti. Þorvaldur Örlygsson hafði reyndar verið fyrstur til að spila þar, frá 1993-1995, og Lárus Orri Sigurðsson lék með Stoke og var fyrirliði liðsins um skeið á árunum 1994-1999 en var nýfarinn til WBA þegar Íslendingarnir tóku við félaginu. Kristján Örn Sigurðsson bróðir hans var með unglinga- og varaliðinu.

Brynjar Björn Gunnarsson og Bjarni Guðjónsson léku síðan mest með Stoke á valdatíma Íslendinganna en þar spiluðu líka um lengri eða skemmri tíma þeir Arnar Gunnlaugsson, Birkir Kristinsson, Einar Þór Daníelsson, Ríkharður Daðason, Sigursteinn Gíslason, Pétur Hafliði Marteinsson, Stefán Þór Þórðarson, Hannes Þ. Sigurðsson og Þórður Guðjónsson auk þess sem Tryggvi Guðmundsson og Hjörvar Hafliðason voru þar á mála í stuttan tíma án þess að spila.

Síðastur Íslendinga hjá Stoke var síðan Eiður Smári Guðjohnsen sem samdi við félagið haustið 2010 en hvarf á braut eftir nokkra mánuði eftir að hafa fengið fá tækifæri hjá knattspyrnustjóranum Tony Pulis.

Pulis hefur þar með verið við stjórnvölinn hjá Stoke í 10 ár, að undanskildu árinu eftir að hann var rekinn, en þá stýrði hann liði Plymouth í eitt tímabil. Áður hafði hann verið stjóri hjá  Portsmouth, Bristol City, Gillingham og Bournemouth. Pulis, sem er 54 ára Walesbúi, lék sjálfur með Bristol Rovers, Newport, Bournemouth og Gillingham frá 1975 til 1992.

Stoke hefur fengið til sín sex nýja leikmenn en sá sjötti og þekktasti af þeim, Michael Owen, samdi við félagið í fyrradag. Miðjumaðurinn Michael Kightly er sá eini af nýju mönnunum sem hefur tekið þátt í fyrstu þremur leikjum liðsins en Charlie Adam kom inná gegn Wigan um síðustu helgi, nýkominn frá Liverpool.

Liðið er því lítið breytt frá því í fyrra, enn sem komið er, með Ryan Shawcross og Robert Huth í aðalhlutverkum í vörninni, Glenn Whelan á miðjunni og þá Peter Crouch, Kenwyne Jones og Jonathan Walters í fremstu víglínu. Þessir leikmenn verða væntanlega allir í stórum hlutverkum í vetur.

Stoke hefur gert jafntefli í þremur fyrstu leikjum sínum í deildinni. Fyrst 1:1 við Reading á útivelli, þá 0:0 við Arsenal á heimavelli og síðan 2:2 við Wigan á útivelli.

Stoke er þekkt fyrir einfaldan og beinskeyttan fótbolta, langar sendingar og löng innköst og stóru mennirnir Huth og Shawcross eru sendir inní vítateig mótherjanna við öll möguleg tækifæri. Óhætt er að segja að Stoke hafi ekki heillað knattspyrnuáhugamenn fyrir leiftrandi fótbolta á undanförnum fjórum árum en liðið hefur hinsvegar fest sig í sessi, sem fæstir áttu von á þegar það kom upp í deildina 2008, og Tony Pulis hefur náð árangri með sínum aðferðum. Ekki þarf að koma á óvart þó Stoke sigli áfram lygnan sjó um miðja deildina í vetur.

Þessir eru komnir:
Charlie Adam frá Liverpool
Maurice Edu frá Rangers
Michael Kightly frá Wolves
Jamie Ness frá Rangers
Steven N'Zonzi frá Blackburn
Michael Owen frá Manchester United

Þessir eru farnir:
Ryan Brunt til Leyton Orient (lán)
Danny Collins til Nottingham Forest
Florent Cuvelier til Walsall (lán)
Andrew Davies til Bradford
Salif Diao, óvíst
Ricardo Fuller til Charlton
Matthew Lund til Bristol Rovers (lán)
Louis Moult til Northampton
Thomas Soares, óvíst
Jonathan Woodgate til Middlesbrough

Leikmenn Stoke City 2012-2013.

Peter Crouch, Michael Kightly og Jonathan Walters hafa skorað mörkin þrjú sem Stoke hefur gert í úrvalsdeildinni til þessa á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert