Ensku liðin kynnt - Newcastle

Newcastle kom hvað mest á óvart af liðunum í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og tókst með sex sigurleikjum í röð seint á leiktíðinni að komast í baráttu um Meistaradeildarsæti en endaði að lokum í 5. sætinu. Það er besti árangur liðsins frá árinu 2004.

Newcastle komst upp í úrvalsdeildina þegar árið 1993 og hefur verið þar allar götur síðan fyrir utan eitt tímabil í næstefstu deild, tímabilið 2009-2010. Liðið náði sínum besta árangri í úrvalsdeildinni þegar það var í 2. sæti hennar árin 1996 og 1997.

Skagamaðurinn Bjarni Guðjónsson er eini Íslendingurinn sem verið hefur á mála hjá Newcastle en hann kom til félagsins frá ÍA árið 1997, 18 ára gamall, og var þar eina leiktíð án þess þó að spila fyrir aðalliðið. Bjarni er í dag fyrirliði KR.

Alan Pardew hefur verið knattspyrnustjóri Newcastle frá því í desember 2010 en hann tók við af Chris Hughton, sem nú stýrir Norwich, sem var nokkuð óvænt sagt upp störfum eftir að hafa komið liðinu aftur í úrvalsdeild það ár. Pardew hefur áður stýrt Southampton, Chalrton, West Ham og Reading en hann var rekinn frá West Ham skömmu eftir að Björgólfur Guðmundsson og Eggert Magnússon eignuðust félagið. Pardew, sem er 51 árs Englendingur, endaði með Newcastle í 12. sæti á fyrstu leiktíð og svo í 5. sæti í vor.

Newcastle er í eigu kaupsýslumannsins Mike Ashley sem keypti félagið sumarið 2007. Hann hefur síðan tvívegis sagst ætla að selja félagið, síðast sumarið 2009, en ekki fannst kaupandi. Ashley hefur aðallega hagnast á viðskiptum sínum í íþróttavörugeiranum en hann er stofnandi Sports Direct verslanakeðjunnar. Á síðustu leiktíð var nafni leikvangsins sem Newcastle spilar á breytt úr St James‘ Park í Sports Direct Arena, en hann gengur þó enn undir fyrra heiti sínu.

Kaup Pardew á leikmönnum fyrir síðasta tímabil þóttu heppnast einkar vel og ekki síst kaupin á framherjanum Papiss Cissé í janúar. Afar litlar breytingar hafa orðið á leikmannahópi Newcastle í sumar en þar ber hæst koma Hollendingsins Vurnon Anita frá Ajax. Anita er 23 ára gamall leikmaður og getur leyst stöðu varnarsinnaðs miðjumanns sem og bakvarðar.

Anita hefur kannski spilað meira en ella í upphafi leiktíðar vegna meiðsla Cheick Tioté en Fílabeinsstrendingurinn var einn af betri miðjumönnum úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð. Hann ætti að fara að sjást á vellinum á ný eftir að hafa meiðst í fyrstu umferð. Frakkinn Yohan Cabaye átti sömuleiðis skínandi leiktíð á miðjunni á sínum fyrsta vetri í Englandi.

Fyrir framan þá var Demba Ba frábær framan af tímabili og skoraði 16 mörk, það sextánda reyndar í byrjun febrúar, en Papiss Cissé tók svo við keflinu eftir áramót og skoraði 13 mörk. Frakkinn Hatem Ben Arfa sýndi líka hvaða hæfileika hann hefur á kantinum og byrjar vel á þessari leiktíð, og ljóst að þessir þrír verða í algjörum lykilhlutverkum í sóknarleiknum. Fyrirliðinn Fabricio Coloccini er algjör lykilmaður í varnarleiknum og Hollendingurinn Tim Krul átti mjög gott tímabil í markinu á síðustu leiktíð.

Það yrði ekki síður stórkostlegur árangur hjá Newcastle að jafna nú árangur sinn frá síðasta tímabili. Búast má við að liðið verði í baráttu um Evrópudeildarsæti en liðið leikur einmitt í þeirri keppni í vetur.

Þessir eru komnir:
Romain Amalfitano frá Reims
Vurnon Anita frá Ajax
Gael Bigirimana frá Coventry
Curtis Good frá Melbourne Heart

Þessir eru farnir:
Leon Best til Blackburn
Paul Dummett til St. Mirren (lán)
Fraser Forster til Celtic
Danny Guthrie til Reading
Michael Hoganson til Derby
Peter Lövenkrands til Birmingham
Alan Smith til MK Dons
Daniel Taylor til Oldham

Leikmenn Newcastle 2012-2013.

Hatem Ben Arfa hefur skorað tvö marka Newcastle til þessa á leiktíðinni og Demba Ba eitt en liðið er með fjögur stig eftir þrjá leiki. Newcastle vann Tottenham heima 2:1 í fyrstu umferð, tapaði 0:2  fyrir Chelsea á útivelli og gerði 1:1 jafntefli heima gegn Aston Villa í 3. umferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert