Ensku liðin kynnt - Tottenham

Tottenham var í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn við Manchester-liðin tvö allt fram í janúar á síðustu leiktíð. Liðinu fataðist svo flugið og vann aðeins einn leik af níu í kjölfar þess að stjórinn, Harry Redknapp, var orðaður við stöðu landsliðsþjálfara Englands í febrúar.

Niðurstaðan varð að lokum 4. sætið en vegna sigurs Chelsea, sem endaði í 6. sæti í úrvalsdeildinni, í Meistaradeild Evrópu dugði það ekki Tottenham til að komast í Meistaradeildina að þessu sinni. Tottenham hefur leikið í úrvalsdeild frá stofnun hennar árið 1992, og verið í efstu deild Englands frá árinu 1978. Síðustu þrjár leiktíðir hefur liðinu vegnað vel og annaðhvort endað í eða barist um eitt af Meistaradeildarsætunum fjórum.

Nokkrir Íslendingar hafa verið á mála hjá Tottenham. Gylfi Þór Sigurðsson bættist sem kunnugt er í þann hóp í sumar en hann kom frá Hoffenheim í Þýskalandi eftir að hafa verið lánaður til Swansea á seinni hluta síðustu leiktíðar. Guðni Bergsson lék í vörn Tottenham árin 1988-1994 og Emil Hallfreðsson var svo á mála hjá félaginu árinu 2005-2007 án þess þó að leika fyrir aðalliðið. Loks var Eiður Smári Guðjohnsen lánaður til Tottenham í janúar 2010 frá Mónakó.

Stjóraskipti hafa verið ansi tíð hjá Tottenham á úrvalsdeildartímanum en Harry Redknapp hafði verið stjóri frá árinu 2008 þegar hann var rekinn í sumar þrátt fyrir að hafa náð fínum árangri síðustu ár. Ástæðan var talin ágreiningur um nýjan samning.

Við starfinu tók að lokum Portúgalinn André Villas-Boas sem gekk illa með Chelsea á síðustu leiktíð og var látinn taka pokann sinn í byrjun mars. Villas-Boas er ungur að árum, aðeins 34 ára, en byrjaði ungur að þjálfa og var aðstoðarmaður José Mourinho hjá Porto, Chelsea og Inter áður en hann tók við liði Académica í Portúgal 2009. Ári síðar var hann ráðinn knattspyrnustjóri Porto þar sem hann náði mögnuðum árangri á fyrsta og eina keppnistímabili sínu með félagið. Porto vann portúgölsku deildina án þess að tapa leik, portúgalska bikarinn og Evrópudeildina. Villas-Boas var svo í kjölfarið ráðinn til Chelsea.

Tottenham er í eigu breska fjárfestingafyrirtækisins ENIC en eigendur þess eru Joe Lewis og Daniel Levy. Þeir eignuðust meirihluta í félaginu árið 2001 og hefur Levy verið stjórnarformaður síðan þá. ENIC átti áður hluta í öðrum knattspyrnufélögum á borð við Rangers, AEK Aþenu og Basel en seldi þau bréf árið 2007 til að eignast 85% hluta í Tottenham.

Talsverðar breytingar urðu á liði Tottenham í sumar. Rétt fyrir lok félagaskiptagluggans komu miðjumaðurinn Moussa Dembélé og miðju- og sóknarmaðurinn Clint Dempsey frá Fulham. Þar er um að ræða tvo bestu leikmenn Fulham en Belginn Dembélé var meðal annars orðaður við Real Madrid í sumar og Brendan Rodgers, stjóri Liverpool, vildi krækja í Dempsey sem skoraði 17 mörk á síðustu leiktíð.

Villas-Boas hefur einnig fengið franska landsliðsmarkvörðinn Hugo Lloris sem þykir með þeim betri í heiminum en hann mun keppa við Bandaríkjamanninn gamla Brad Friedel um stöðu í byrjunarliði. Gylfi Þór kom eins og áður segir frá Hoffenheim og ætti að reynast góður liðsstyrkur spili hann eins og með Swansea á síðustu leiktíð, og belgíski varnarmaðurinn Jan Vertonghen kom frá Ajax. Þá tókst Tottenham að lokum að semja við sóknarmanninn Emmanuel Adebayor um kaup og kjör, og kaupa hann frá Manchester City, en Adebayor stóð sig vel sem lánsmaður hjá Tottenham á síðustu leiktíð.

Ein lengsta félagaskiptasaga sumarsins snerist um króatíska miðjumanninn Luka Modric sem seldur var til Real Madrid fyrir 33 milljónir punda. Hollenski miðjumaðurinn Rafael van der Vaart var einnig seldur en saman léku þeir stór hlutverk í sóknarleik Tottenham. Við þeim hlutverkum þurfa Gylfi, Dembélé og fleiri að taka.

Wales-verjinn Gareth Bale er algjör lykilmaður í liði Tottenham og einn af betri kantmönnum heims þegar sá gállinn er á honum. Scott Parker stóð sig frábærlega á miðjunni hjá liðinu á síðustu leiktíð, eftir að hafa komið frá West Ham, en hann hefur átt við meiðsli að stríða í upphafi leiktíðar. Þá var bakvörðurinn Kyle Walker kjörinn besti ungi leikmaður úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð eftir að hafa slegið í gegn á fyrsta heila tímabili sínu með Tottenham.

Tottenham á að geta slegist um Meistaradeildarsæti eins og síðustu ár en með breytt lið og ungan stjóra í brúnni er aldrei að vita hvað gerist. Tímabilið byrjar alla vega ekki vel því liðið hefur aðeins náð í tvö stig af níu í fyrstu þremur umferðunum þrátt fyrir að hafa mætt WBA og Norwich á heimavelli.

Þessir eru komnir:
Emmanuel Adebayor frá Manchester City
Moussa Dembélé frá Fulham
Clint Dempsey frá Fulham
Hugo Lloris frá Lyon
Gylfi Þór Sigurðsson frá Hoffenheim
Jan Vertonghen frá Ajax

Þessir eru farnir:
Ben Alnwick til Barnsley
Lee Angol til Wycombe Wanderers
Sébastien Bassong til Norwich
David Bentley til Rostov (lán)
John Bostock til Swindon (lán)
David Button til Charlton
Vedran Corluka til Lokomotiv Moskva
Giovani Dos Santos til Real Mallorca
Ryan Fredericks til Brentford (lán)
Harry Kane til Norwich (lán)
Bongani Khumalo til PAOK Saloniki (lán)
Ledley King, hættur
Niko Kranjcar til Dynamo Kiev
Massimo Luongo til Ipswich (lán)
Luka Modric til Real Madrid
Ryan Nelsen til QPR
Steven Pienaar til Everton
Danny Rose til Sunderland (lán)
Louis Saha til Sunderland
Rafael van der Vaart til Hamburger SV

Leikmenn Tottenham 2012-2013.

Jermain Defoe, Benoit Assou-Ekotto og Moussa Dembélé hafa skorað mörk Tottenham til þessa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert