Ensku liðin kynnt - Manchester City

Eftir 44 ára bið fagnaði Manchester City Englandsmeistaratitlinum á ný í vor eftir hatramma baráttu við Manchester United þar sem úrslitin réðust á markatölu. City tapaði aðeins einum leik fyrir áramót og vann meðal annars sögulegan 6:1-sigur á Old Trafford. Liðið var hins vegar nærri búið að glutra niður titlinum undir lok tímabilsins þegar það lék þrjá leiki í röð án sigurs, en á eftir fylgdu hins vegar sex sigurleikir í röð, þar á meðal annar sigur á United.

Árni Gautur Arason fyrrverandi landsliðsmarkvörður er eini Íslendingurinn sem spilað hefur með Manchester City en hann kom til liðsins frá Rosenborg 2004. Árni Gautur var varamarkvörður liðsins en spilaði ótrúlegan bikarleik við Tottenham þar sem tíu leikmenn City unnu 4:3-sigur eftir að hafa verið 3:0 undir í hálfleik, og átti Árni Gautur stóran þátt í því afreki.

Ítalinn Roberto Mancini tók við City af Mark Hughes í desember 2009 og hefur þegar fagnað Englands- og bikarmeistaratitli með liðinu. Mancini, sem er 47 ára, varð ítalskur meistari með Sampdoria og Lazio sem leikmaður og stýrði Inter þrívegis til sigurs sem stjóri á árunum 2006-2008, þó fyrsti titillinn kæmi reyndar eftir að Juventus var dæmt niður um deild. Mancini hefur 11 sinnum fagnað bikarmeistaratitli samtals sem leikmaður og stjóri og því óhætt að segja að hann þekki sigurtilfinninguna vel.

Thaksin Shinawatra fyrrverandi forsætisráðherra Taílands eignaðist Manchester City árið 2007 og í kjölfarið gat félagið farið að beita sér betur á leikmannamarkaðnum. Stóra breytingin fyrir City varð þó þegar sjeikinn Mansour bin Zayed Al Nahyan keypti félagið í gegnum Abu Dhabi United Group sumarið 2008. Síðan þá hefur félagið getað eytt gríðarháum fjárhæðum í leikmenn og árangurinn er eftir því. Fjölskylda Mansours bin Zayeds fer með ráðamál í olíuríkinu Abu Dhabi og með olíusjóði þessa 41 árs gamla auðkýfings til taks ættu peningar ekki að vera vandamál fyrir City í nánustu framtíð.

Mancini ætlar að sjálfsögðu að byggja á leikmannahópnum sem landaði Englandsmeistaratitlinum í vor og lengi vel leit út fyrir að miðjumaðurinn ungi Jack Rodwell yrði sá eini sem bættist við hópinn í sumar. Á lokadegi félagaskiptagluggans komu hins vegar fjórir leikmenn til viðbótar. Þar ber hæst koma Spánverjans Javi García sem kom frá Benfica en er uppalinn hjá Real Madrid. García getur bæði leikið sem aftasti miðjumaður og sem miðvörður, og ætti því að nýtast City vel.

Kantmaðurinn Scott Sinclair kom frá Swansea þar sem hann átti gott tímabil síðasta vetur og kemur á vissan hátt í stað Adam Johnson sem var enginn byrjunarliðsmaður hjá City og var seldur til Sunderland. Brasilíski bakvörðurinn Maicon hafnaði öðrum stórliðum til að semja við City og þá fékk félagið 19 ára gamlan Serba í vörnina, Matija Nastasic, og Richard Wright sem varamarkvörð.

City losaði sig við nokkra leikmenn af launaskrá sem minna hafa spilað en seldi einnig hollenska miðjumanninn Nigel de Jong til AC Milan.

Argentínumaðurinn Sergio Agüero sló í gegn með City á síðustu leiktíð og skoraði 23 mörk en þetta var aðeins hans fyrsta tímabil í Englandi. City hefur úr fleiri frábærum framherjum að velja því Edin Dzeko og Mario Balotelli skiluðu báðir vel á annan tug marka á síðustu leiktíð og Carlos Tévez er löngu hættur í fýlu og gæti hæglega orðið markakóngur úrvalsdeildarinnar í vetur.

Yaya Touré var algjör lykilmaður hjá City á síðustu leiktíð og er einn besti, ef ekki besti, miðjumaður úrvalsdeildarinnar. Svipaða sögu má segja af miðverðinum belgíska Vincent Kompany sem hefur staðið fyllilega undir því að vera gerður að fyrirliða liðsins. City er einnig með heimsklassamarkvörð í Englendingnum Joe Hart sem átti frábært tímabil síðasta vetur. Þá eru ónefndir menn á borð við Samir Nasri, Gareth Barry og fleiri.

City stefnir hiklaust að því að verja Englandsmeistaratitilinn auk þess að ná árangri í Meistaradeild Evrópu en þar er liðið í afar erfiðum riðli með Real Madrid, Dortmund og Ajax.

Þessir eru komnir:
Javi García frá Benfica
Maicon frá Inter Mílanó
Matija Nastasic frá Fiorerntina
Jack Rodwell frá Everton
Scott Sinclair frá Swansea
Richard Wright  frá Preston

Þessir eru farnir:
Emmanuel Adebayor til Tottenham
Dedryck Boyata til Twente (lán)
Wayne Bridge til Brighton (lán)
Harry Bunn til Crewe (lán)
Greg Cunningham til Bristol City
Nigel de Jong til AC Milan
Omar Elabdellaoui til Feyenoord (lán)
Owen Hargreaves, óvíst
Adam Johnson til Sunderland
Ryan McGivern til Hibernian (lán)
Roque Santa Cruz til Málaga (lán)
Stefan Savic til Fiorentina
Stuart Taylor til Reading
Vladimir Weiss til Pescara

Leikmenn Manchester City 2012-2013.

Carlos Tévez hefur skorað 3 mörk það sem af er leiktíð, þeir Yaya Touré og Edin Dzeko tvö mörk hvor, og Samir Nasri eitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert