Ensku liðin kynnt - Arsenal

Eftir skelfilega byrjun á síðasta tímabili þar sem liðið tapaði meðal annars 8:2 fyrir Manchester United náði Arsenal sér vel á strik og vann sig upp í 3. sæti úrvalsdeildarinnar í mars þar sem liðið endaði svo að lokum.

 Arsenal hefur ekki endað neðar en í 4. sæti frá árinu 1996 en liðið vann úrvalsdeildina síðast árið 2004 og hefur endað í 3. eða 4. sæti síðustu sjö leiktíðir.

Fyrsti atvinnumaður Íslands í knattspyrnu, Valsarinn Albert Guðmundsson, kom til Arsenal árið 1946 og lék tvo deildaleiki með liðinu áður en hann hélt til Nancy í Frakklandi og síðar AC Milan. Hann gat ekki spilað meira en þetta með liðinu í deildakeppninni vegna reglna um erlenda leikmenn og atvinnumennsku á þeim tíma.

Skagamaðurinn Sigurður Jónsson kom svo til Arsenal árið 1989 og var í hópnum sem varð enskur meistari árið 1991 áður en hann varð að hætta hjá liðinu vegna bakmeiðsla. Ólafur Ingi Skúlason kom svo 18 ára til Arsenal árið 2001 og var í fjögur ár en eini leikur hans með aðalliðinu var gegn Wolves í deildabikarnum árið 2003.

Frakkinn Arsene Wenger tók við Arsenal sumarið 1996 og aðeins Sir Alex Ferguson hefur verið lengur í starfi hjá sínu félagi á Englandi. Wenger hefur eins og áður segir aldrei skilað Arsenal neðar en í 4. sæti á sínum tíma, landað þremur Englandsmeistaratitlum og fjórum bikarmeistaratitlum auk þess að koma liðinu í fyrsta sinn í úrslitaleik Meistaradeildarinnar árið 2006.

Undir stjórn Wenger hefur Arsenal getið sér orð fyrir skemmtilegan og sóknarsinnaðan fótbolta en sjö ár eru nú liðin síðan síðasti stóri titillinn kom í hús. Wenger hefur legið undir ámæli fyrir að láta það viðgangast að skærustu stjörnur liðsins fari frá liðinu en aftur á móti hafa ófáir óslípaðir demantar fengið að glitra undir hans stjórn. Samningur Wenger við Arsenal rennur út eftir tvö ár og hann sagðist í dag ekki vera farinn að hugsa lengra en það þó að stjórn félagsins hafi gefið til kynna að hún vilji gera lengri samning.

Bandaríski auðkýfingurinn Stanley Kroenke á meirihluta í Arsenal eða 66,83% í gegnum KSE UK Inc. Kroenke, sem er 65 ára gamall, á einnig hlut í bandarískum félagsliðum í NBA, NHL og MLS-deildunum í gegnum Kroenke Sports Enterprises. Rússneski milljarðamæringurinn Alisher Usmanov og Íraninn Farhad Moshiri eiga næststærsta hlutinn í félaginu í gegnum Red & White Securities eða 29,35%.

Stærstu félagaskipti sumarsins voru án nokkurs vafa sala Arsenal á Robin van Persie til Manchester United. Van Persie var besti og markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð en neitaði að endurnýja samning sinn við Arsenal sem átti að renna út eftir ár. Því varð Arsenal að endurtaka leikinn og selja sína skærustu stjörnu líkt og fyrir ári þegar Cesc Fabregas fór til Barcelona en þá fór Samir Nasri einnig til Manchester City.

Arsenal jafnaði sig eftir það áfall og í sumar hafði Wenger varann á og var snemma búinn að fá til sín franska framherjann Oliver Giroud frá Montpellier og Þjóðverjann Lukas Podolski frá Köln en Podolski getur bæði leikið úti á kanti og frammi. Þá fékk Wenger spænska landsliðsmanninn Santi Cazorla sem þykir einnig mjög góður kantmaður. Arsenal seldi hins vegar Kamerúnann Alex Song til Barcelona rétt eftir að keppnistímabilið hófst en Song hefur verið algjör lykilmaður á miðjunni hjá liðinu. Þá virðist enn ekki þörf fyrir Danann Nicklas Bendtner sem var lánaður burt líkt og á síðustu leiktíð.

Það efast enginn um það að Van Persie var aðalmaður Arsenal á síðustu leiktíð en nú þurfa aðrir að taka við keflinu. Spænski miðjumaðurinn Mikel Arteta lék oft frábærlega síðasta vetur og kantmaðurinn Theo Walcott hefur mikla hæfileika en þarf að ná  meiri stöðugleika í sinn leik. Thomas Vermaelen er einn besti miðvörður deildarinnar, og hættulegur í föstum leikatriðum, og Pólverjinn Wojciech Szczęsny er orðinn mjög góður markvörður. Svo verður að koma í ljós hvernig nýju mennirnir stimpla sig inn.

Arsenal hefur burði til að berjast  á toppi deildarinnar en verður líklega að sætta sig við 3. eða 4. sætið líkt og síðastliðin ár.

Þessir eru komnir:
Santi Cazorla frá Málaga
Olivier Giroud frá Montpellier
Lukas Podolski frá Köln

Þessir eru farnir:
Benik Afobe til Bolton (lán)
Manuel Almunia til Watford
Chuks Aneke til Crewe (lán)
Kyle Bartley til Swansea
Yossi Benayoun til Chelsea (úr láni)
Nicklas Bendtner til Juventus (lán)
Daniel Boateng til Oxford (lán)
Pedro Botelho til Atlético Paranaense
Alban Bunjaku til Sevilla
Park Chu-young til Celta Vigo (lán)
Tom Cruise til Torquay
Denilson til Sao Paulo (lán, framlengt)
Samuel Galindo til Lugo (lán)
Ben Glasgow til Stoke
Gavin Hoyte til Dagenham & Redbridge
Henri Lansbury til Nottingham Forest
Ryo Miyaichi til Wigan (lán)
Jeffrey Monakana til Preston
Robin van Persie til Manchester United
Alex Song til Barcelona
Carlos Vela til Real Sociedad
Wellington Alves da Silva til Ponferradina (lán)
Oguzhan Özyakup til Besiktas

Leikmenn Arsenal 2012-2013.

Lukas Podolski og Santi Cazorla hafa skorað einu mörk Arsenal hingað til á leiktíðinni í sigri á Liverpool, 2:0, í 3. umferð eftir tvö markalaus jafntefli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert