Hætt við æfingahring vegna vandamála á brautinni

Carlos Sainz klessti á holræsislok.
Carlos Sainz klessti á holræsislok. AFP/Jim Watson

Hætta þurfti við fyrsta æfingahring fyrir kappaksturinn í Las Vegas í Formúlu 1 í nótt vegna vandamála sem komu upp á brautinni í bandarísku borginni.

Aðeins voru níu mínútur liðnar af fyrsta æfingahring þegar Carlos Sainz hjá Ferrari skemmdi undirlag bifreiðar sinnar með því að klessa á laust holræsislok á brautinni, sem er ný af nálinni og fer í gegnum hluta Las Vegas.

Skipuleggjendur kappakstursins, þeim fyrsta í Las Vegas í rúma fjóra áratugi, sáu sér ekki fært um annað en að aflýsa æfingunni til þess að ganga úr skugga um að holræsislok á brautinni myndu ekki valda frekari vandamálum.

Samkvæmt ESPN kom í ljós að fjöldi holræsa á brautinni voru með laus lok og hófst vinna við að laga þau þegar í stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert