Schumacher hélt að ég væri að reyna að drepa hann

Michael Schumacher.
Michael Schumacher. AFP

Skotinn David Coulthard ræddi samskipti sín við ökuþórinn fyrrverandi Michael Schumacher í nýrri heimildarmynd um Þjóðverjann sem ber nafnið „Being Michael Schumacher“.

Coulthard, sem er 52 ára í dag, keyrði lengst af fyrir McLaren í formúlu 1 en hann keyrði þó einnig fyrir Williams og Red Bull á ferlinum sem stóð yfir í 14 ár, á árunum 1994 til 2008.

Árið 1998 lenti Coulthard og Schumacher saman í Belgíukappakstrinum en Schumacher og Mika Häkkinen, liðsfélagi Coulhards hjá McLaren, háðu þá harða baráttu um heimsmeistaratitilinn.

Var alveg brjálaður

„Michael hélt að það væri einhvers konar samsæri í gangi og hann hélt að ég væri að reyna drepa hann,“ sagði Coulthard í heimildarmyndinni.

„Hann hélt að markmiðið væri að hjálpa Mika að verða heimsmeistari þannig að hann kom æðandi inn í liðsskúrinn hjá McLaren eftir þetta, alveg brjálaður.

Þetta var bara slys og alls ekkert viljaverk. Svona hlutir geta gerst í formúlu eitt og það er lítið við þeim að gera,“ bætti Coulthard við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert