Gæti skipt um lið til þess að vinna

Lando Norris átti gott tímabil hjá McLaren.
Lando Norris átti gott tímabil hjá McLaren. AFP

Hætt er við því að breski ökuþórinn Lando Norris sem keyrir fyrir McLaren í Formúlu 1, skoði sig um nú þegar Formúlan er í fríi.

Lando Norris er samningsbundinn McLaren til ársins 2025 en hann á að baki yfir 100 kappakstra fyrir McLaren, án þess að vinna einn einasta.

McLaren byrjaði síðasta tímabil illa og var bíllinn þeirra einn sá hægasti á brautinni. Þegar leið á tímabilið varð bíllinn betri og betri með hverri keppninni og undir lok tímabils var hann orðinn einn af þeim hröðustu, á eftir Red Bull.

Árangurinn undir lok tímabilsins gæti haldið Lando Norris áfram hjá liðinu en talið er að Red Bull vilji sækja þennan 24 ára breta.

Norris hefur þó gefið út að hann vilji vinna keppni hjá McLaren en hvort það eitt sé nóg til þess að halda honum hjá liðinu er óvíst. Það verður áhugavert að fylgjast með fréttum af ökuþórum á komandi vikum en Formúla 1 hefst aftur 2. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert