Tvö mörk frá Viðari og eitt frá Birki

Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson. Ljósmynd/dagbladet.no

Selfyssingurinn Viðar Örn Kjartansson rauf í dag 20 marka múrinn í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þegar hann skoraði tvö mörk í 3:3-jafntefli Vålerenga og Brann. Þar með hefur Viðar skorað 21 mörk í deildinni á leiktíðinni.

Viðar Örn hefur leikið 20 leiki í deildinni og því með 1,05 mörk að meðalatali í leik. Hann er lang markahæsti maður norsku úrvalsdeildinnar, því  næstu menn á eftir honum hafa einungis skorað 11 mörk.

Fyrra mark Viðars kom á 20. mínútu þegar hann kom Vålerenga í 2:0 en það síðara á 67. mínútu þegar hann breytti stöðunni í 3:1.

Birkir Már Sævarsson kom inn á sem varamaður hjá Brann á 68. mínútu og átti svo sannarlega eftir að reynast Brann mikilvægur því hann jafnaði metin í 3:3 þegar hann skoraði á 87. mínútu.

Vålerenga er í 4. sæti deildarinnar með 33 stig eftir 21 leik en Brann í 15. sæti, næstneðsta sætinu með 19 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert