Ragnar og félagar réðu ekki við De Bruyne

Kevin De Bruyne lék vel í Rússlandi í dag.
Kevin De Bruyne lék vel í Rússlandi í dag. AFP

Ragnar Sigurðsson og samherjar í rússneska liðinu Krasnodar réðu ekki við belgíska sóknartengiliðinn Kevin De Bruyne í dag þegar hann heimsótti þá með þýska liðinu Wolfsburg í riðlakeppni Evrópudeildar UEFA í knattspyrnu.

De Bruyne skoraði tvö mörk og lagði eitt upp fyrir Wolfsburg sem vann góðan útisigur í Rússlandi, 4:2. Luiz Gustavo gerði eitt marka þýska liðsins og það fyrsta var sjálfsmark frá Andreas Granqvist, félaga Ragnars í vörn rússneska liðsins.

Granqvist skoraði sjálfur úr vítaspyrnu og Wanderson gerði seinna mark Krasnodar sem lenti undir, 0:2 og 1:4. Ragnar lék allan leikinn í vörn liðsins að vanda.

Wolfsburg er þá með 4 stig í riðlinum eins og Everton en Lille og Krasnodar eru með 2 stig hvort. Leikur Lille og Everton stendur nú yfir í Frakklandi og þar er staðan 0:0 í hálfleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert