Þær bandarísku fóru létt með Sviss

Amy Rodriguez í baráttunni gegn Norðmönnum á miðvikudag.
Amy Rodriguez í baráttunni gegn Norðmönnum á miðvikudag. AFP

Lið Bandaríkjanna og Sviss sem eru með Íslandi í riðli í Algarve-bikarnum mættust í fyrri leik B-riðils dag og fóru þær bandarísku með frábæran sigur af hólmi 3:0 og eru nú með fullt hús stiga eftir tvo leiki.

Markalaust var í fyrri hálfleik en Alex Morgan kom liðinu yfir á 54. mínútu eftir stoðsendingu frá Lauren Holiday.

Amy Rodriguez tvöfaldaði forystu liðsins á 72. mínútu eftir klafs í vítateig Svisslendinga en varamaðurinn Abby Wambach sem hafði aðeins verið inni á vellinum í eina mínútu kórónaði svo sigur Bandaríkjanna með frábæru marki og góðri afgreiðslu þegar hún vippaði boltanum yfir markvörð Svisslendinga, 3:0 lokatölur.

Bandaríkin fara með sigrinum í sex stig og eru komin í góða stöðu fyrir lokaleik liðsins gegn Íslandi á mánudag. Sviss hefur þrjú stig í 2. sæti.

Norðmenn og Íslendingar eigast við í hinum leik riðilsins, þar er staðan 1:0 fyrir Noregi þegar þetta er skrifað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert