Bendtner vill vera um kyrrt í Wolfsburg

Nicklas Bendtner í leik með Arsenal.
Nicklas Bendtner í leik með Arsenal. AFP

Daninn Nicklas Bendtner segist vilja vera um kyrrt í þýska knattspyrnufélaginu Wolfsburg þrátt fyrir að honum hafi ekki tekist að tryggja sér byrjunarliðssæti.

Bendtner hefur verið í skugga Hollendingsins Bas Dost í framlínunni og aðeins skorað eitt mark í átján leikjum í 1. deildinni fyrir Wolfsburg. Honum gekk þó aðeins betur í Evrópudeildinni en í henni skoraði hann 4 mörk. Vegna slæmrar frammistöðu á tímabilinu hefur Bendtner verið orðaður frá félaginu og er FC Kaupmannahöfn meðal þeirra liða sem hafa áhuga á Dananum stóra. Sjálfur vill Bendtner vera um kyrrt og berjast fyrir sæti í Wolfsburg sem mun leika í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.

„Ég vil gjarnan vera um kyrrt í Wolfsburg og ég á enn tvö ár eftir af samningnum mínum. Ég er viss um að þetta sé rétta félagið fyrir mig. Þetta hefur verið frábært tímabil og ég hef þroskast sem manneskja og leikmaður. Vissulega hefði ég viljað spila stærra hlutverk en ég hlakka til næsta tímabils þegar við munum einnig spila í Meistaradeildinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert