Fern verðlaun á Norðurlandamótinu

Íslensku stelpurnar á verðlaunapallinum.
Íslensku stelpurnar á verðlaunapallinum. Ljósmynd/fimleikasamband Íslands

Íslenska landsliðið í fimleikum gerði það gott á Norðurlandamótinu í áhaldafimleikum sem lauk í Halmstad í Svíþjóð í gær.

Kvennalandsliðið krækti í bronsverðlaunin í liðakeppninni í fjölþraut í fyrradag og í gær hreppti Norma Dögg Róbertsdóttir silfur fyrir stökk í kvennaflokki, Jón Sigurður vann til silfurverðlaun fyrir æfingar sínar í hringjum í karlaflokki og Eyþór Örn Baldursson fékk bronsið fyrir æfingar sínar í hringjum í unglingaflokki.

„Við erum hrikalega glöð með þennan árangur. Árangurinn hjá kvennaliðinu að ná bronsinu í fjölþrautinni var glæsilegur og þetta segir okkur að við erum í mikilli framför. Norma Dögg, Jón Sigurður og Eyþór Örn fylgdu þessum góða árangri svo eftir með því að vinna til verðlauna í einstaklingskeppninni,“ sagði Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Fimleikasambands Íslands, við Morgunblaðið í gær.

„Við teljum okkur eiga stórt erindi á Norðurlandamót og í okkar hópi eru keppendur sem eru með góðan reynslubanka. Jón Sigurður og Norma kepptu til að mynda á heimsmeistaramótinu á síðasta ári og þau keppa á Evrópumótinu í Sofiu í Búlgaríu í næsta mánuði,“ sagði Þorgerður Laufey.

Að sögn Þorgerðar sendir Ísland lið í fullorðinsflokki og stúlknaflokki á Evrópumótið og karlalið og tvo unglinga í karlaflokki. „Ég get alveg séð fyrir mér að Norma eigi möguleika á að komast í úrslit í stökki á Evrópumótinu. Hún er með betri stökkvurum í Evrópu og það verður spennandi að fylgjast með henni á mótinu, sem og öllum öðrum okkar keppendum,“ sagði Þorgerður. gummih@mbl.is

Norma Dögg, lengst til vinstri, á verðlaunapalli í dag.
Norma Dögg, lengst til vinstri, á verðlaunapalli í dag. Ljósmynd/facebook síða Fimleikasambandsins
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert