Besta hjólreiðafólk ársins valið

Björk Kristjánsdóttir og Ingvar Ómarsson.
Björk Kristjánsdóttir og Ingvar Ómarsson. Ljósmynd/Óskar Ómarsson

Hjólreiðasamband Íslands tilkynnti í kvöld hverjir hefðu orðið fyrir valinu sem hjólreiðafólk ársins 2015, í kosningu aðildarfélaga sambandsins.

Niðurstaða kosningarinnar var sú að Björk Kristjánsdóttir var kjörin hjólreiðakona ársins og Ingvar Ómarsson hjólreiðakarl ársins, en bæði eru þau úr hjólreiðafélaginu Tindi, einu af fimm aðildarfélögum sambandsins.

Í tilkynningu frá HRÍ segir að bæði hafi þau átt frábært tímabil og séu vel að heiðrinum komin. Bæði unnu þau tvöfaldan sigur á árinu því þau urðu bikarmeistarar kvenna og karla, bæði í götuhjólreiðum og fjallahjólreiðum.

Aðrir bikarmeistarar ársins urðu Birna Björnsdóttir og Hákon Hrafn Sigurðsson úr 3SH, sem sigruðu í kvenna- og karlaflokki í tímatöku, og Emilia Niewada úr Hjólreiðafélagi Akureyrar og Helgi Berg Friðþjófsson úr Hjólreiðafélagi Reykjavíkur sem sigruðu í kvenna- og karlaflokki í fjallabruni.

Þá voru útnefndir efnilegustu unglingarnir. Í kvennaflokki var það Kristín Edda Sveinsdóttir úr Hjólreiðafélagi Reykjavíkur en hún hlaut viðurkenninguna þriðja árið í röð. Í karlaflokki fengu tveir viðurkenninguna, þeir Gústav Darrason úr Tindi og Sæmundur Guðmundsson úr Hjólreiðafélagi Reykjavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert