Ayana og Bolt frjálsíþróttafólk ársins

Almaz Ayana og Usain Bolt með verðlaun sín í Mónakó …
Almaz Ayana og Usain Bolt með verðlaun sín í Mónakó í kvöld. AFP

Almaz Ayana frá Eþíópíu og Usain Bolt frá Jamaíku voru í kvöld útnefnd frjálsíþróttafólk ársins af Alþjóðafrjálsíþróttasambandinu. Þetta er í sjötta sinn sem Bolt er valinn bestur frjálsíþróttakarla, sem er met.

Bolt vann til þrennra ólympíugullverðlauna, í þriðja sinn á ferlinum, á Ólympíuleikunum í Ríó í ágúst. Þar vann hann 100 og 200 metra hlaup og var í sveit Jamaíku sem vann 4x100 metra boðhlaup.

„Þetta hefur svo sannarlega mikla þýðingu fyrir mig,“ sagði Bolt eftir að hafa tekið við verðlaununum, en hann hlaut þau einnig árin 2008, 2009, 2011, 2012 og 2013. Bolt hyggst leggja skóna á hilluna á næsta ári, eftir heimsmeistaramótið í London.

Ayana bætti 23 ára gamalt heimsmet í 10 kílómetra hlaupi þegar hún vann sigur á Ólympíuleikunum í Ríó með því að hlaupa á 29 mínútum og 17,45 sekúndum. Þessi 25 ára gamla hlaupakona fékk einnig bronsverðlaun í 5 kílómetra hlaupi og varð stigameistari í demantamótaröðinni í sömu grein.

Andre de Grasse frá Kanada og Nafissatou Thiam frá Belgíu, sem bæði eru 22 ára, voru valin efnilegust. De Grasse fékk silfur í 200 metra hlaupi og brons í 100 metra hlaupi í Ríó. Thiam varð ólympíumeistari í sjöþraut.

Þá fékk þjálfarinn Harry Marra viðurkenningu en hann þjálfar Ashton Eaton sem varð ólympíumeistari í tugþraut í annað sinn, og Brianne Theisen Eaton sem fékk brons í sjöþraut í Ríó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert