Dönsk tennisstjarna: Þetta er vanvirðing

Caroline Wozniacki.
Caroline Wozniacki. AFP

Danska tennisstjarnan Caroline Wozniacki segir það vanvirðingu gagnvart öðrum keppendum í atvinnumótaröð kvenna í tennis, WTA, að leyfa hinni rússnesku Mariu Sharapovu að taka þátt í móti sem hefst þegar keppnisbanni sem hún var sett í á síðasta ári verður ekki lokið.

Sharapova, sem féll á lyfjaprófi eftir opna ástralska mótið í janúar 2016, var dæmd í 15 mánaða keppnisbann sem lýkur 26. apríl en mótið sem henni var boðið að taka þátt í hefst 24. apríl. Sharapova fær sjálf ekki að mæta á mótið fyrr en 26. apríl en henni var úthlutað svokölluðu „wildcard“ til þess að fá að taka þátt.

Mótið sem um ræðir er Porsche Grand Prix-mótið sem er hluti af WTA-mótaröðinni en Porsche er einmitt einn helsti styrktaraðili Sharapovu sem hefur unnið mótið þrívegis.

„Það eiga allir skilið annað tækifæri. En á sama tíma finnst mér að þegar leikmaður er dæmdur í bann fyrir lyfjamisnotkun, að hann eigi að byrja á botninum og vinna sig þaðan upp,“ sagði Wozniacki.

„Mér finnst það vafasamt, sama hver á í hlut, að leikmaður sem er í banni fái að spila á móti í sömu viku,“ sagði Wozniacki.

„Mér finnst mótshaldarar sýna leikmönnum WTA vanvirðingu,“ segir Wozniacki.

Ummæli Wozniacki koma í kjölfarið á gagnrýni skoska tenniskappans Andy Murray sem gagnrýndi einnig framferði mótshaldara sem veita ákveðnum keppendum „wildcard“.

Hin þýska Angelique Kerber, sem vann opna ástralska mótið er Sharapova féll á lyfjaprófinu og vann einnig opna bandaríska mótið á þessu ári, sagði einnig að sér þætti það skrýtið að einhver leikmaður gæti mætt til leiks á sama degi og hann á leik.

Maria Sharapova.
Maria Sharapova. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert