Ernie Els efstur á heimavelli

Ernie Els
Ernie Els AFP

Gamla kempan Ernie Els er enn í fullu fjöri á golfvellinum og er með forystu á fyrsta keppnisdegi á móti í heimalandi sínu, Suður-Afríku, en mótið tilheyrir Evrópumótaröðinni.

Els, sem gjarnan er kallaður „Big easy“ af fjölmiðlamönnum, lék fyrsta hringinn á 67 höggum og er með eitt högg í forskot.

Spánverjinn Jordi Garcia Pinto er höggi á eftir en þrír kylfingar léku á 69 höggum, þar á meðal Svíinn Niclas Fasth en ekki hafa allir lokið leik í dag.

Ernie Els er 45 ára gamall og hefur haldið sér lengi í fremstu röð en hann sigraði síðast á risamóti þegar hann vann Opna breska meistaramótið 2012 og náði 7. sæti á PGA-meistaramótinu í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert