Erum sterkasta þjóðin

Kristján Þór Einarsson.
Kristján Þór Einarsson. mbl.is/Styrmir Kári

„Við vitum eiginlega ekkert hvað við erum að fara út í, nema helst það að við erum að fara að spila 72 holur af golfi,“ sagði Kristján Þór Einarsson, stigameistari síðasta árs á Eimskipsmótaröðinni í golfi, léttur í bragði eftir að hann var kynntur sem einn af landsliðsmönnum Íslands sem keppa á Smáþjóðaleikunum í byrjun júní.

Auk Kristjáns eru þeir Haraldur Franklín Magnús og Andri Þór Björnsson í karlalandsliðinu, og þær Karen Guðnadóttir, Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Sunna Víðisdóttir í kvennaliðinu.

Sjö þjóðir keppa í karlaflokki og fimm í kvennaflokki. Leikið verður fjóra daga á Korpuvelli, 3.-6. júní, og gilda tvö bestu skor af þremur á hverjum degi, að sögn Kristjáns. Ísland setur skýra stefnu á sigur enda óvíst að mótstaðan verði mikil.

Golfmenningin ekki mikil þarna

„Ég hef spilað á Evrópumóti og HM með landsliðinu og ég man ekki eftir að hafa séð fulltrúa frá þessum þjóðum á þeim mótum. Vissulega erum við því örugglega sterkasta þjóðin á pappírum, þó að maður viti ekki nákvæmlega um styrk hinna landanna. Golfmenningin í þessum löndum er kannski ekkert brjálæðislega mikil en það leynast örugglega góðir kylfingar inn á milli. En við þurfum að spila vel í 72 holur og megum ekki vanmeta hin liðin alveg strax,“ sagði Kristján. Hann verður líka með landsliðinu á Evrópumótinu 8.-11. júní. Þar leikur Ísland eins og síðustu ár í 2. deild, með tíu öðrum liðum, en Kristján og félagar ætla sér að bæta úr því.

„Við setjum klárlega markið á að komast í aðalkeppnina. Það er markmið númer eitt, tvö og þrjú, og þá þurfum við að lenda í einu af þremur efstu sætunum,“ sagði Kristján.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert