Íslendingarnir magnaðir í Slóvakíu

Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Guðmundur Ágúst Kristjánsson er orðinn efstur eftir frábæra spilamennsku á öðrum hringnum í dag á EM áhugamanna í golfi í Slóvakíu. Guðmundur er samtals 12 högg undir pari eftir að hafa leikið á 65 höggum í dag en var á 67 höggum í gær.

Mögnuð spilamennska hjá Guðmundi en hann fékk átta fugla í dag og einn skolla. Í gær fór Guðmundur á kostum á seinni níu holunum og lék þær á 29 höggum og fékk þá tvo erni. En í gær fékk hann hins vegar þrjá skolla á fyrri níu.

Guðmundur er greinilega í miklu stuði en Haraldur Franklín Magnús félagi hans úr GR er ekki farinn af stað í dag en hann var efstur eftir gærdaginn á 64 höggum. Fékk  hann átta fugla og paraði rest.

Axel Bóasson úr Keili var á 68 í gær en missti flugið í dag og var á 75 höggum. Hann er nú í 73. sæti en margir eiga eftir að ljúka leik í dag. 

Gísli Sveinbergsson Keili, Andri Þór Björnsson GR og Bjarki Pétursson GB eiga eftir að ljúka leik í dag en þeir voru neðarlega eftir gærdaginn. 

Frétt mbl.is í gær: Stórkostleg spilamennska Haraldar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert