Úlfar lætur af störfum um áramótin

Úlfar Jónsson mun láta af störfum sem landsliðsþjálfari í golfi …
Úlfar Jónsson mun láta af störfum sem landsliðsþjálfari í golfi um áramótin. Ljósmynd/golf.is

Úlfar Jónsson, sem verið hefur landsliðsþjálfari í golfi síðastliðin fimm ár, hefur tilkynnt stjórn golfsambands Íslands (GSÍ) að hann hyggist láta gott heita um næstu áramót. Þetta kemur fram í viðtali við hann inni á golf.is. 

Golfíþróttin á Íslandi er á góðum stað og ég tel að það sé rétti tíminn fyrir mig hætta eftir rúmlega fimm ár sem landsliðsþjálfari. Það hefur margt breyst á undanförnum fimm árum og með hverju árinu sem líður er alltaf erfiðara og erfiðara að vera í tveimur krefjandi störfum, sagði Úlfar í samtali við golf.is.

„ Starfssemin hjá GSÍ er alltaf að stækka og einnig í mínu aðalstarfi sem íþróttastjóri GKG. Það eru spennandi tímar framundan á báðum vígstöðvum, en nú tel ég rétt að velja á milli og einbeita mér að öðru hvoru. GKG varð ofan á af ýmsum ástæðum,“ sagði Úlfar enn fremur um ástæðuna fyrir ákvörðun sinni.

„Ég fengið mikinn stuðning frá GSÍ og það er hlutverk landsliðsþjálfarans að taka erfiðar ákvarðarnir varðandi val á leikmönnum í verkefnin. Þær ákvarðanir eru oft umdeildar og skiptar skoðanir á því hvað sé rétt og rangt. GSÍ hefur alltaf stutt vel við bakið á mér á þeim stundum,“ segir Úlfar fullur þakklætis.

„Mér finnst gagnrýnin sem GSÍ hefur fengið varðandi ýmis mál vera oft óréttmæt, starfið sem unnið er hjá Golfsambandinu yfir sumartímann er þrekvirki. Þar vinna allir að miklum heilindum undir miklu álagi, mótahald um hverja helgi, samhliða daglegum rekstri. GSÍ er ekki hafið yfir gagnrýni en ég hef aðeins upplifað að þar á bæ séu allir að vinna af metnaði og fagmennsku fyrir golfhreyfinguna,“ segir Úlfar um starfið hjá GSÍ.

Viðtalið við Úlfar í heild sinni má finna inni á golf.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert