Ólafía Þórunn komst örugglega áfram

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.

Kylfingurinn Ólafía Þór­unn Krist­ins­dótt­ir úr GR komst örugglega áfram á annað stig úrtökumóts fyrir LPGA-at­vinnu­mótaröðina í Banda­ríkj­un­um.

Ólafía, sem er Íslands­meist­ari í golfi, spilaði mjög stöðugt golf á lokahringnum en leiknir voru fjórir hringir. Hún fékk einn fugl, einn skolla og var á 72 höggum eða pari. Ólafía lék hringina fjóra á samtals 7 höggum undir pari og endaði jöfn í 5. sæti í mótinu. 

Ég er mjög sátt með spilamennskuna mína í þessu móti. Ég hélt áfram á sömu braut þar sem frá var horfið á Íslandsmótinu, tók gott sjálfstraust þaðan, “ sagði Ólafía í samtali við kylfingur.is eftir að mótinu lauk.

Efstu 90 kylfingarnir í mótinu komast áfram á annað stig úrtökumóts fyrir LPGA-mótaröðina en komst Ólafía þar að leiðandi örugglega áfram. 

Annað stig úrtökumótsins fer fram 17.-23. október á Plantation-vellinum í Flórída.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert