Ágúst Elí: Aldrei nein spurning

„Við byrjuðum mjög vel, og mér fannst sigur í raun aldrei nein spurning,“ sagði Ágúst Elí Björgvinsson markvörður FH að loknum sigri á Haukum á Ásvöllum í kvöld, 32:25 í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik, en vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslit.

„Við höfum verið virkilega óheppnir í leikjum okkar gegn Haukum í vetur og misst dampinn í 5-10 mínútur í öllum leikjunum. En núna héldum við baráttunni áfram allan leikinn og misstum þetta aldrei frá okkur,“ sagði Ágúst sem varði 14 skot í marki FH í leiknum í kvöld.

Ágúst sagði það styrkja sig í baráttunni að fá Daníel Frey Andrésson markmann í leikmannahóp FH á ný, en Daníel var í leikmannahóp FH í kvöld í fyrsta sinn síðan í byrjun desember. Ágúst lék þó allan leikinn í kvöld.

Viðtalið við Ágúst Elí má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert