Stjarnan að hlið ÍBV - Haukar unnu Val

Esther Viktoría Ragnarsdóttir var markahæst hjá Stjörnunni í dag.
Esther Viktoría Ragnarsdóttir var markahæst hjá Stjörnunni í dag. mbl.is/Eva Björk

Stjarnan vann afar mikilvægan sigur á ÍBV í Garðabænum í dag, 25:23, í Olís-deild kvenna í handknattleik. Með sigrinum jafnaði Stjarnan ÍBV og Gróttu að stigum í 2.-4. sæti með 16 stig en Grótta á leik til góða gegn KA/Þór sem stendur yfir.

Stjarnan var tveimur mörkum yfir í hálfleik í dag, 14:12. Esther Viktoría Ragnarsdóttir var markahæst í liðinu með 6 mörk og Helena Rut Örvarsdóttir skoraði 4, en alls komust 9 leikmenn á blað fyrir heimakonur.

Ester Óskarsdóttir var markahæst hjá ÍBV með 8 mörk og Telma Amado skoraði 7.

Það var einnig hörkuleikur að Hlíðarenda þar sem Valur og Haukar áttust við en Haukar fögnuðu að lokum þriggja marka sigri, 30:27. Fyrirliðinn Karen Helga Díönudóttir fór fyrir Haukum og skoraði 10 mörk en Marija Gedroit kom næst með 6 mörk. Kristín Guðmundsdóttir dró að vanda vagninn fyrir Val og skoraði heil 12 mörk en það dugði ekki til í dag.

Haukar eru nú með 10 stig í 5. sæti deildarinnar en Valur er með 7 stig í 8. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert