„Er í stóru hlutverki“

Tandri Már Konráðsson.
Tandri Már Konráðsson. Ljósmynd/www.ricohhandboll.se

Handknattleiksmaðurinn Tandri Már Konráðsson hefur gert það gott í sænsku úrvalsdeildinni á leiktíðinni en frammistaða hans með nýliðum Rioch hefur vakið verðskuldaða athygli.

Tandri, sem er 23 ára gamall fyrrverandi leikmaður HK og Stjörnunnar og lék með Tönder í dönsku B-deildinni á síðustu leiktíð, samdi við Rioch í sumar til tveggja ára og hefur svo sannarlega staðið sig vel.

Tandri er markahæsti leikmaður liðsins á tímabilinu, hefur skorað 86 mörk í 17 leikjum og hefur átt 15 stoðsendingar og er ofarlega í báðum tölfræðiþáttum í deildinni. Þá var Tandri Már valinn í æfingahóp íslenska landsliðsins á dögunum sem Aron Kristjánsson valdi fyrir HM í Katar og það er einn vottur um góða frammistöðu leikmannsins sem er 23 ára gamall.

Var fljótur að aðlagast liðinu

„Ég kann ótrúlega vel við mig hér í Stokkhólmi og að spila í sænsku úrvalsdeildinni. Ég var fljótur að aðlagast liðinu og mér líður mjög vel í alla staði sem er fyrir öllu,“ sagði Tandri í samtali við Morgunblaðið en hann spilar í skyttustöðunni vinstra megin. „Ég er í stóru hlutverki með liðinu. Áður en ég skrifaði undir samninginn við liðið ræddi ég við þjálfarann og hann lofaði mér því að ég myndi spila mikið og hann hefur staðið við það. Ég þurfti að standa undir traustinu og ég get ekki sagt annað en að mér hafi gengið vel og það hafi verið stígandi í mínum leik. Það er mikill munur á að spila í þessari deild heldur en í dönsku B-deildinni,“ sagði Tandri.

Sjá allt viðtalið við Tandra Már í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert