Einar hættur hjá Molde

Einar Jónsson er hættur þjálfun kvennaliðs Molde eftir tveggja ára …
Einar Jónsson er hættur þjálfun kvennaliðs Molde eftir tveggja ára árangursríkt starf. mbl.is/Steinn Vignir

„Ég er hættur hjá Molde. Það liggur nú fyrir,“ segir handknattleiksþjálfarinn Einar Jónsson í samtali við mbl.is. „Þetta er að vissu leyti leiðinlegt að geta ekki haldið áfram uppbyggingu liðsins eftir tveggja ára starf hjá félaginu en því miður þá eru forsendur fyrir áframhaldandi starfi ekki fyrir hendi,“ segir Einar sem veit ekki á þessari stundu hvað tekur við hjá sér eftir tveggja ára starf hjá Molde í Noregi.

Undir stjórn Einars hefur Molde unnið sig upp um tvær deildir á tveimur árum. Á dögunum tryggði Molde sér sæti í úrvalsdeild kvenna í fyrsta sinn í sögunni. Einar segir að hann hafi átt í viðræðum við forráðamenn Molde um nokkurt skeið um nýjan samning en þær viðræður hafi ekki skilað árangri.

„Tilfinningarnar eru blendnar að hætta núna eftir tveggja ára uppbyggingu á liðinu og skemmtileg og árangursríkan tíma. En svona er þetta. Þegar maður er í þessu starfi verður maður að vera viðbúinn að málin taki aðra stefnu en maður óskar sér. Forsendur fyrir framhaldinu eru því miður ekki fyrir hendi,“ segir Einar.

Einar segir óvíst hvað taki við hjá sér á næsta keppnistímabili. Að sínu mati hafi viðræður við Molde dregist um of á langinn en við því sé ekkert að gera héðan af. Nú sé að minnsta kosti botn fenginn. Hvað taki við hjá nýliðum Molde á næsta keppnistímabili sé ekki lengur sitt mál.

Einar segist hafa fengið fyrirspurnir frá félögum á Íslandi en eins frá félögum annarstaðar í Evrópu. „Það hefur ekki verið nein alvara í þeim fyrirspurnum. Þar af leiðandi er ég opinn fyrir öllu um þessar mundir. Við sjáum til hvað setur,“ segir Einar Jónsson sem stýrði karla- og kvennaliðum Fram árum saman áður en hann flutti til Noregs ásamt konu og ungum syni fyrir tveimur árum.

„Tíminn hjá Molde hefur verið lærdómsríkur. Nú er honum lokið og vonandi tekur eitthvað spennandi við,“ segir handknattleiksþjálfarinn Einar Jónsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert