Hanna Guðrún framlengir

Hanna Guðrún Stefánsdóttir í þann mund að skora hjá ÍBV …
Hanna Guðrún Stefánsdóttir í þann mund að skora hjá ÍBV í einum af kappleikjum leiktíðarinnar. mbl.is/Styrmir Kári

Handknattleikskonan þrautreynda, Hanna Guðrún Stefánsdóttir, hefur skrifað undir nýjan samning við Stjörnuna um að leika liði félagsins næstu tvö árin. Hanna Guðrún hefur verið í herbúðum Stjörnunnar í sex ár og varð bikarmeistari með liðinu í febrúar sl.

Hanna Guðrún er ein leikreyndasta handknattleikskona landsins og einhver sú allra markahæsta á Íslandsmótinu frá upphafi. Hún er í öðru sæti yfir leikjahæstu landsliðskonur Íslands með 142 landsleiki og 458 mörk.

Hanna Guðrún lék árum saman með Haukum og varð margfaldur meistari með liðinu. Hún skipti yfir í Stjörnuna sumarið 2010 og hefur síðan verið eitt af akkerum liðsins.

Hanna Guðrún verður að vanda með Stjörnunni í kvöld þegar liðið mætir deildarmeisturum Hauka í fjórða sinn í undanúrslitum Íslandsmótsins í TM-höllinni í Garðabæ.  Flautað verður til leiks klukkan 20. Haukar hafa unnið tvo leiki í rimmu liðanna en Stjarnan einn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert