Pressan er ekki á okkur

Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel.
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel. Ljósmynd/JONAS GUETTLER

„Veszprém er sigurstranglegra liðið í viðureigninni við okkur, það er á hreinu,“ sagði Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, þegar mbl.is hitti hann að máli í Köln í Þýskalandi fyrr í dag. Alfreð stýrir liði sínu í úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu í handknattleik í sjötta sinn á síðustu sjö árum þegar Kiel mætir ungverska meistaraliðinu Veszprém í undanúrslitum keppninnar í Lanxess-Arena  í Köln á morgun klukkan 16.

„Við förum til þess að gera nokkuð afslappaðir inn í leikinn við Veszprém. Pressan er ekkert stórvægileg á okkur að þessu sinni. Það er jákvætt fyrir okkur eftir erfitt keppnistímabil þar sem margt hefur gengið á afturfótunum að vera komnir þetta langt í keppninni. Um leið er möguleiki fyrir okkur að landa einhverju í lok leiktíðar, þótt ekki væri annað en að komast í úrslitaleikinn,“ sagði Alfreð sem hefur verið einstaklega óheppinn með leikmannahóp sinn á keppnistímabilinu þar sem hver leikmaðurinn á eftir öðrum hefur helst úr lestinni nánast frá fyrstu viku leiktíðarinnar. Sumir hafa margoft meiðst aftur eftir að hafa jafnað sig á einum meiðslum. Þá hafa önnur tekið sig upp. Má þar nefna Stefan Weinhold, þýskan landsliðsmann, sem leikið hefur stórt hlutverki í vörn jafnt sem sókn hjá Kiel á síðustu tveimur árum. „Ég er með frekar lítinn hóp og marga óreynda, einhverja sem eru nýkomnir til baka,“ sagði Alfreð og viðurkennir að mestur söknuðurinn sé að Réne Torf Hansen og Weinhold af þeim langa lista leikmanna sem hann saknar um þessar mundir.

Engu að síður tókst Kiel að slá Evrópumeistara Kiel úr keppni í 8-liða úrslitum. Alfreð segir að í báðum viðureignum við Barcelona hafi flest gengið upp hjá sínu liði og það hafi sennilega leikið sína bestu leiki á keppnistímabilinu. „Við lékum tvo framúrskarandi leiki gegn Barcelona, ekki síst í vörninni og síðan var Niklas Landin frábær í markinu hjá okkur í báðum viðureignum.“

Um leiki helgarinnar segir Alfreð að ljóst sé að hávær krafa sé upp í herbúðum PSG og Veszprém að vinna Meistaradeildina að þessu sinni. „Það er algjör skylda hjá Veszprém að leika að minnsta kosti til úrslita og helst að vinna. Hjá PSG er hins vegar skylduverkefni að vinna keppnina. Þar kemur ekkert annað til greina hjá þeim sem þar fara með stjórn mála.

Ég held því fram að ef við verðum vel inni í leiknum við Veszprém þegar stundarfjórðungur verður til leiksloka þá mun pressan þyngjast á Veszprém eftir því mínúturnar líða. Við höfum yfirleitt leikið skemmtilega leiki við Veszprém en eins og staðan er á hópnum hjá okkur þá verðum við eiginlega að leika betur en vel, nánast hrikalega vel, til þess að vinna,“ sagði Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, í samtali við mbl.is í Köln í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert