Haukar sneru blaðinu við í Mýrinni

Þórhildur Gunnarsdóttir úr Stjörnunni reynir skot að marki Hauka í …
Þórhildur Gunnarsdóttir úr Stjörnunni reynir skot að marki Hauka í leiknum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Haukar lögðu Stjörnuna að velli, 21:20, í æsispennandi leik í 1. umferð Olís-deildar kvenna í handknattleik í Garðabænum í dag eftir að Stjarnan hafði verið fimm mörkum yfir í hálfleik.

Stjörnunni var spáð Íslandsmeistaratitlinum fyrir mót og fór afskaplega vel af stað í dag. Vörnin var sérstaklega flott en eftir 17 mínútur var staðan 8:2 og voru leikmenn Stjörnunnar í raun klaufar að munurinn var ekki meiri en það kom ekki mark frá Haukum í einar 12 mínútur í fyrri hálfleik.

Haukaliðið byrjaði aðeins að bíta frá sér eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn en munurinn hélst í fjórum til sex mörkum allt til loka hálfleiksins. Staðan í leikhléi var 12:7 en Maria Ines Pereira hélt sóknarleik Hauka uppi ásamt því að Elín Jóna var að verja ágætlega. Hinum megin var Heiða Ingólfsdóttir að eiga ágætisleik í markinu en Þórhildur Gunnarsdóttir og Stefanía Theórsdóttir voru flottar sóknarlega.

Allt annað Haukalið kom í seinni hálfleik. Með flottri vörn og rosalegum leik hjá Mariu Pereira átu þær jafnt og þétt upp forskot Stjörnunnar og var staðan orðin 16:15 þegar seinni hálfleikur var tæplega hálfnaður. Þá tók Halldór Harri, þjálfari Stjörnunnar, leikhlé. Til að byrja með virkaði það eins og vítamínsprauta fyrir Stjörnuna sem komst aftur þremur mörkum yfir.

Sem fyrr kom Haukaliðið til baka og þegar sjö mínútur voru eftir voru þær komnar yfir í fyrsta skipti í stöðunni 19:18 og var viðsnúningurinn í seinni hálfleik algjör. Hanna G. Stefánsdóttir jafnaði svo leikinn í næstu sókn og tók Óskar Ármannsson, þjálfari Hauka, þá leikhlé í stöðunni 19:19 þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir.

Eftir æsispennandi lokamínútu reyndist Ragnheiður Ragnarsdóttir hetja Hauka en hún skoraði sigurmarkið þegar mínúta var eftir. Stjörnuliðið fékk tækifæri til að jafna leikinn en boltinn var dæmdur af þeim og ansi sætur sigur Hauka var staðreynd í rússíbanaleik.  

Stjarnan 20:21 Haukar opna loka
60. mín. Leik lokið Þvílíkur viðsnúningur hjá Haukum. Frábær sigur þeirra er staðreynd.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert