„Vissum ekki alveg við hverju var að búast“

Anton Rúnarsson í leik með Val gegn FH.
Anton Rúnarsson í leik með Val gegn FH. Stella Andrea Guðmundsdóttir

Anton Rúnarsson spilaði mjög vel fyrir Val, sem vann öruggan 31:24 sigur á norska liðinu Haslum í fyrri leik liðanna í 32 liða úrslitum Áskorendabikars Evrópu, í Valshöllinni í dag. Anton stýrði sóknarleik heimamanna af stakri prýði og skoraði 7 mörk, í öllum regnbogans litum. Hann sagði að Valsarar hefðu rennt blint í sjóinn varðandi andstæðing sinn.

„Við vissum ekki alveg við hverju við áttum að búast. Þetta lið er í toppbaráttunni í norsku deildinni og komnir í bikarúrslit, þannig að við vorum bara klárir í hörkuslag. Við ætluðum að vera grimmir fyrir og þeir voru greinilega ekki mikið fyrir það að fá svona aggressíva vörn á móti sér. Þeir létu þetta fara í taugarnar á sér og við nýttum okkur það. Sóknarlega spiluðum við líka mjög vel, vorum skynsamir og keyrðum á þá á réttum mómentum,” sagði Anton Rúnarsson, í samtali við mbl.is, eftir leik.

Valur náði mest tíu marka forskoti, þegar 6 mínútur lifðu leiks. Værukærð heimamanna undir lok leiksins, gerði það að verkum að sjö mörk skildu liðin, þegar flautað var til leiksloka. Anton var ekki sáttur með spilamennsku liðsins, síðustu mínúturnar. „Það kom smá stress í þetta þegar þeir breyttu vörninni sinni í 4:2. Við misstum boltann nokkrum sinnum klaufalega og fengum mark í bakið. En fyrirfram hefði ég alltaf þegið sjö marka sigur, þannig að þetta er ágætis veganesti. Við förum einfaldlega út til þess að klára þetta,” sagði Anton ennfremur.

Anton spilaði lengi erlendis og er einn reyndasti leikmaður Valsliðsins. Það var því ljóst að mikið myndi mæða á honum í dag. „Þetta er æðislegt að spila með uppeldisfélaginu í Evrópukeppni og vonandi getum við boðið fólkinu okkar upp á fleiri Evrópuleiki á þessi tímabili. Það er allavega markmiðið,” sagði Anton að lokum.

Síðari leikur liðanna fer fram í Noregi eftir slétta viku, laugardaginn. 26. nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert