Mætti fara að endurnýja bikarinn

Orri Freyr Gíslason.
Orri Freyr Gíslason. mbl.is/Golli

„Það er alltaf gaman að heyra fólk tala um okkur sem ríkjandi meistara og við ætlum að halda því þannig,“ sagði Orri Freyr Gíslason, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is í aðdraganda undanúrslitaleiks Coca Cola-bikarsins í handknattleik gegn FH sem fram fer síðar í dag.

Orri og félagar í Valsliðinu voru um síðustu helgi í Svartfjallalandi þar sem þeir spiluðu tvo Evrópuleiki. Hann segir að þrátt fyrir langt ferðalag sé engin ferðaþreyta í hópnum heldur gefi svona ferðir aðeins aukinn meðbyr í liðsandann.

„Jú algjörlega. Og ef talað er um þreytu má leggja dæmið út þannig að í leikjunum í Svartfjallalandi þá spiluðum við 40 sóknir, miðað við 70 sóknir á móti Haslum í 32ja liða úrslitunum. Svo þetta voru mjög rólegir leikir, en ferðalagið var vissulega langt og strangt. En það er samt engin þreyta og við erum bara ferskir og góðir,“ sagði Orri.

Skemmtilegast að mæta heitasta liðinu

Hann hrósaði FH-liðinu og á von á hörkuleik og notaði meðal annars tímann í flugi frá Svartfjallalandi til þess að undirbúa sig.

„Þeir eru náttúrulega hrikalega öflugir. Ég horfði á myndbönd af þeim í flugvélinni á leiðinni heim og þeir eru að spila mjög hraðan og skemmtilegan bolta. Þeir eru ekki endilega hávaxnir, en láta boltann fljóta vel og það er áskorun að reyna að stoppa þá. Þeir eru heitasta liðið í dag og það er alltaf skemmtilegt að mæta heitasta liðinu,“ sagði Orri.

Þegar blaðamaður ræddi við hann stóð sjálfur bikarinn skammt frá og viðurkennir Orri að það kitli mikið að fá að endurheimta hann.

„Já, maður man bara eftir bikarnum þegar maður lyftir honum en gleymir honum alla hina mánuði ársins. Augnablikið í Höllinni er það eina sem maður man. Það er alltaf gaman að sjá þennan bikar, en það mætti reyndar alveg fara að endurnýja hann hugsa ég. Hann hefur örugglega dottið nokkrum sinnum á góðum stundum í gegnum árin,“ sagði Orri Freyr Gíslason léttur við mbl.is.

Leikur Vals og FH hefst klukkan 17.15 í dag og verður í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert