Ragnheiður hetja Fram á ögurstundu

María Karlsdóttir úr Haukum brýst í gegnum vörn Fram í …
María Karlsdóttir úr Haukum brýst í gegnum vörn Fram í leiknum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fram er komið yfir í einvíginu við Hauka í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitil kvenna í handknattleik eftir sigur, 23:22, í fyrsta leik liðanna sem fram fór í Safamýri í dag. Fram var þremur mörkum undir í hálfleik en Ragnheiður Júlíusdóttir tryggði sigurinn þegar leiktíminn var runninn út.

Flestir bjuggust við meiru af Fram-liðinu fyrir leikinn en það voru hins vegar Haukar sem tóku frumkvæðið í leiknum. Eftir tíu mínútna leik var staðan 4:1 fyrir Haukum og létu gestirnir forystu sína aldrei af hendi í fyrri hálfleik. Mestur varð munurinn fjögur mörk en þegar flautað var til hálfleiks voru Haukar þremur mörkum yfir, 11:8.

Haukar héldu dampi eftir hlé og juku forskotið fljótt aftur. Um miðjan síðari hálfleikinn kom hins vegar góður kafli hjá Fram, þar sem heimakonur skoruðu fimm mörk gegn einu og jöfnuðu metin í 16:16.

Mestu munaði þar um að Ragnheiður Júlíusdóttir hrökk í gang. Hún skoraði fjögur mörk á örskömmum tíma og Fram komst yfir í fyrsta sinn í leiknum, 18:17. Boðið var svo upp á mikla spennu það sem eftir lifði leiks.

Þegar tæp mínúta var eftir af leiknum var staðan 22:22 og allt í járnum. Leiktíminn rann út en Fram átti aukakast. Ragnheiður tók það, náði skoti í gegnum allan varnarvegg Hauka og upp í bláhornið. Dramatískur 23:22-sigur Fram staðreynd.

Ragnheiður var markahæst hjá Fram í leiknum með 6 mörk en Maria Ines Da Silva skoraði 7 fyrir Hauka.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun. Viðtöl koma hingað á vefinn síðar í dag.

Fram 23:22 Haukar opna loka
60. mín. Fram tekur leikhlé Stefán tekur leikhlé þegar 33 sekúndur eru eftir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert