Guðjón markahæstur og Löwen efst

Guðjón Valur Sigurðsson er meðal markahæstu manna í Þýskalandi.
Guðjón Valur Sigurðsson er meðal markahæstu manna í Þýskalandi. Ljósmynd/Robert Spasovski

Rhein-Neckar Löwen komst á ný í efsta sæti þýsku 1. deildarinnar í handknattleik í gærkvöld með því að sigra Balingen, lið Rúnars Sigtryggssonar, af öryggi á heimavelli, 33:23.

Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur hjá Löwen með 7 mörk og Alexander Petersson gerði 2 mörk. Löwen er með 53 stig á toppnum og Flensburg 52 þegar bæði lið eiga fimm leikjum ólokið.

Bergischer  fékk dýrmætt stig í fallbaráttunni með jafntefli gegn Wetzlar á heimavelli, 18:18. Arnór Þór Gunnarsson skoraði 3 mörk fyrir Bergischer og Björgvin Páll Gústavsson var í markinu. Bergischer komst úr fallsæti og er með 18 stig eins og Stuttgart en í fallsætunum eru Lemgo og Balingen með 17 stig og Coburg með 11 stig.

Í B-deildinni skoraði Oddur Gretarsson 3 mörk fyrir Emsdetten í útisigri gegn Leutershausen, 27:23, og Ragnar Jóhannsson gerði 2 mörk fyrir Hüttenberg sem tapaði í Eisenach, 28:26.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert