Króatía eða Noregur meðal mótherjanna

Ísland tryggði sér sæti á EM á sunnudagskvöld.
Ísland tryggði sér sæti á EM á sunnudagskvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik verður annaðhvort í A- eða B-riðli, spilar annaðhvort í Split eða Porec í riðlakeppninni og mætir annaðhvort Króatíu eða Noregi. Liðið getur ekki mætt Ungverjalandi, Slóveníu eða Austurríki.

Þessar staðreyndir liggja fyrir eftir að þjóðunum sextán sem leika til úrslita um Evrópumeistaratitilinn í Króatíu í janúar 2018 var raðað niður í styrkleikaflokka í gær. Ísland lenti þar í fjórða og neðsta flokki en dregið verður í riðla í Zagreb síðdegis á föstudaginn kemur, 23. júní.

Þegar hefur verið ákveðið að Króatía verði í A-riðli og leiki í Split, Noregur verði í B-riðli og leiki í Porec, Slóvenía verði í C-riðli og leiki í Zagreb og Ungverjaland verði í D-riðli og leiki í Varazdin.

  • Þar sem Slóvenía og Ungverjaland eru ásamt Austurríki og Íslandi í neðsta flokknum er öruggt að Ísland verður ekki í C- eða D-riðli.
  • Í efsta flokki eru Þýskaland, Spánn, Króatía og Frakkland. Ísland mætir einu þessara liða og helmings líkur eru á að það verði Króatía.
  • Í öðrum flokki eru Danmörk, Hvíta-Rússland, Svíþjóð og Makedónía. Ísland mætir einu af þessum liðum og möguleikarnir eru jafnir þar sem ekkert þeirra er eyrnamerkt ákveðnum riðli.
  • Í þriðja flokki eru Noregur, Serbía, Svartfjallaland og Tékkland. Ísland mætir einu þessara liða og helmings líkur eru á að það verði Noregur.

Patrekur Jóhannesson stýrir liði Austurríkis á EM og Kristján Andrésson liði Svíþjóðar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert